Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir þriðja ársfjórðung er áætluð EBITDA á fjórðungnum á bilinu 8-10% undir þriðja ársfjórðungi síðasta árs sem nam 19,3 milljónum evra. Í ljósi þess er afkomuspá ársins lækkuð í 49-53 milljónir evra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Helstu ástæður fyrir lakari afkomu eru sagðar samdráttur í Noregi, ásamt því að bilanir á frystiskipum hafi haft töluverð neikvæð áhrif á reksturinn þar. Þar að auki hafi innflutningur til Íslands verið minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þá hafi uppbygging á magni í  vikulegum Trans-Atlantic og Short-Sea siglingum einnig tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir, og félagið orðið fyrir einskiptiskostnaði í tengslum við fækkun starfsfólks í Evrópu. Afkoma af frystiflutningsmiðlun sé áfram undir væntingum.

„Í ljósi bráðabirgða niðurstöðu þriðja ársfjórðungs og horfum fyrir síðustu mánuði ársins er afkomuspá fyrir árið 2018 lækkuð og liggur á bilinu 49 til 53 milljónir evra samanborið við 57 til 63 milljónir evra sem gefin var út í maí 2018. Í ágúst sl. var samhliða afkomutilkynningu upplýst að væntingar væru um að afkoma ársins yrði í neðri mörkum til miðgildis EBITDA spár.“

Félagið vinnur enn að uppgjöri ársfjórðungsins og í samræmi við fjárhagsdagatal mun Eimskip birta þriðja ársfjórðung 2018 á Kauphöll þann 20. nóvember og fjárfestafundur verður haldinn 21. nóvember kl. 8:30 að Korngörðum 2 í Reykjavík.