Hluthafafundur Eimskip samþykkt í gær heimild til kaupa á 18 milljón hlutum eigin bréfa, sem á gangvirði þegar þetta er skrifað eru rúmir 4,3 milljarðar króna. Við það fellur eldri kaupaheimild úr gildi.

Þá var einnig samþykkt að ógilda 13 milljón hluti af eigin bréfum félagsins; bréfum sem eru í eigu félagsins sjálfs. Sá hluti jafngildir 6,5% heildarhlutafjár félagsins, en sú aðgerð er háð undanþágu Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra frá innköllunarskyldu. Ógildingin hefur engin bein áhrif á aðra hluthafa félagsins, þar sem hlutirnir voru nú þegar í eigu félagsins sjálfs.

Heimild félagsins til kaupa á eigin hlutum takmarkast við að eignarhlutur félagsins og dótturfélaga þess fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Með ofangreindri ógildingu myndast því svigrúm til kaupa á eigin bréfum, þar sem eignarhlutur félagsins í sjálfu sér lækkar við aðgerðina.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskipa, segir þó enga ákvörðun hafa verið tekna á þessari stundu um kaup félagsins á eigin bréfum.

Samherji keypti fyrir viku síðan rúman fjórðungshlut í Eimskipum á 11 milljarða íslenskra króna af bandaríska fjárfestingafélaginu Yucaipa Company, og í kjölfarið hækkuðu hlutabréf Eimskip um 16%. Í dag eru þau rétt tæplega 20% hærri en við lokun markaða daginn áður en tilkynnt var um kaup Samherja.