Í hverfinu 101 Reykjavík þá var ein af hverjum átta íbúðum í útleigu í gegnum Airbnb á hverjum degi í júlí árið 2016. Það þýðir að tæp 12,5% af heildarfjölda íbúða á svæðinu hafi verið undirlögð fyrir þennan þátt ferðaþjónustunnar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íbúðarmarkaðinn.

Mismikið eftir hverfum

Á hverjum degi í Reykjavík í júlí árið 2016 þá var 1 af hverjum 23 íbúðum í Reykjavík í útleigu til ferðamanna í gegnum Airbnb, sem þýðir að 4,4% af öllu íbúðarhúsnæði í höfuðborginni hafi verið lögð undir þessa starfsemi segir einnig í skýrslunni.

Eins og við mátti búast þá skiptist hlutfall íbúða sem eru í útleigu í gegnum Airbnb niður eftir póstnúmerum. Hlutfallið er hæst í 101, en í hverfunum 101, 105 og 107 er ein af hverjum þrettán íbúðum í útleigu í gegnum Airbnb.

Fjölgun ferðamanna myndar þrýsting

Til viðbótar þá hefur fjölgun hótela og annars konar gistiþjónustu einnig skert lóðarframboð sem annars hefði verið hægt að nota í nýbyggingu íbúða á þessum svæðum. Það virðist því nokkuð ljóst miðað við það sem kemur fram í skýrslu Íslandsbanka að fjölgun ferðamanna og uppgangur ferðaþjónustunnar hafi myndað ákveðin þrýsting til hækkunar íbúðarverði, sérstaklega miðsvæðis.