Icelandair hóf sem kunnugt er áætlunarflug til Seattle í Bandaríkjunum í síðustu viku en þangað mun félagið fljúga fjórum sinnum í viku allan ársins hring.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið geri ráð fyrir um 65-70 þúsund farþegum á þessari leið sem þýðir aukna veltu upp á um 35 milljónir Bandaríkjadala.

Þá er jafnframt gert ráð fyrir að hlutfall erlendra farþega á flugleiðinni verði rúmlega 90%. Að sögn Birkis skapar áætlunarflug til Seattle störf fyrir um 80-100 manns en þar er þó ekki að öllu leyti um ný störf að ræða.

Með leiðinni heldur Icelandair sömu vetraráætlun og í fyrra en ef ekki væri flogið til Seattle hefði að öllum líkindum verið þörf á því að skera niður innan fyrirtækisins. Þá segir Birkir að með því að fara inn á Seattle sé Icelandair í raun í fyrsta skipti að fara inn á markað sem er þróaður og taka við ákveðinni markaðshlutdeild – í stað þess að koma inn og bæta við framboði sem er fyrir á markaðnum.

„Eftir að SAS fer út erum við eina norræna flugfélagið sem flýgur á vesturströnd Bandaríkjanna og verðum með skemmsta ferðatímann milli Skandinavíu og vesturstrandar Bandaríkjanna,“ segir Birkir, en fyrr á þessu ári tilkynnti SAS að félagið myndi, eftir 46 ára flug, hætta að fljúga á milli Kaupmannahafnar og Seattle.

„Það er mikill fjöldi farþega sem flýgur á milli Seattle og Skandinavíu og tækifærin eru mikil. Það má nefna að í Seattle og nágrenni eru höfuðstöðvar nokkurra vel þekktra fyrirtækja, eins og Microsoft, Boeing, Starbucks, American Seafood, Amazon, Expedia, svo einhver séu nefnd.”

Flugvélar Icelandair hentugri en vélar SAS

Aðspurður um það hvers vegna Icelandair leggur í flug sem SAS er að hætta segir Birkir að lega Íslands sé mjög hagstæð fyrir þessa flugleið en að sama skapi henti flugfloti Icelandair vel til verkefnisins.

„SAS var að fljúga leiðina á mjög stórum vélum [Airbus 340] sem erfitt er að fylla og þurfti auk þess að vera með tvær áhafnir sökum þess hve flugið var langt frá Kaupmannahöfn,“ segir Birkir.

„Við getum hins vegar notað vélar okkar [Boeing 757] sem eru minni og getum nýtt eina áhöfn í flugið. Bara þessi atriði vega mjög þungt í svona rekstri.“

Birkir segir að helstu flugleiðir Icelandair liggi til Norðurlandanna og því sé í raun bara tekin áhætta með flugleiðina á milli Seattle og Keflavíkur. Þá geri flugleiðin það að verkum að félaginu tekst að halda uppi reglulegri tíðni farþega á milli Evrópu og Bandaríkjanna líkt og var síðasta vetur.