Velta í íslenskum tölvuleikjaiðnaði hefur vaxið um 18% á ári frá árinu 2009. Velta iðnaðarins í fyrra nam yfir 11 milljörðum króna, sem er álíka mikið og velta í útgáfustarfsemi hér á landi.

Á Íslandi eru engir íslenskir dreifingaraðilar á tölvuleikjum. Þess í stað hafa innlendir tölvuleikjaframleiðendur gripið til þess ráðs að gefa út og selja leiki sína milliliðalaust á netinu. Um 3,4 milljarðar manna hafa aðgengi að netinu. Í hverri viku ver fólk yfir 3 milljörðum klukkustunda í tölvuleiki og yfir 100 milljónir manna spila tölvuleiki. Meðalaldur þeirra er 35 ára. Netið gerir þennan markað aðgengilegan frá Íslandi (t.d. í gegnum Steam, App Store og Google Play) og hefur fært vald í hendurnar á minni fyrirtækjum sem geta selt framleiðslu sína nánast milliliðalaust til neytenda á markaðssvæðum um heim allan í stað þess að framleiða áþreifanleg eintök. Þetta hefur gert fyrirtækjunum kleift að kljúfa ölduna og spara umtalsverðar fjárhæðir í markaðssetningu og yfirbyggingu. Stafræna byltingin og netið hafa skapað einstök tækifæri í verðmætasköpun í tölvuleikjaiðnaði.

Ódýrir framleiðsluþættir

Þegar rýnt er í stöðu mála hér á landi þarf ekki að þykja undarlegt að hér hafi vaxið blómlegur tölvuleikjaiðnaður undanfarin ár.

„Hér eru ágætar aðstæður til að hanna tölvuleiki,“ segir Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, stjórnarmaður Samtaka íslenskra leikjaframleiðenda (Icelandic Game Industry, IGI) og einn af stofnendum samtakanna.

Flestir íbúar á Íslandi eru með háhraða nettengingu. Menntunarstigið á Íslandi er hátt, en mannauður skiptir höfuðmáli fyrir fyrirtækin í þessum iðnaði, enda grundvallast allir tölvuleikir á ímyndunarafli og þekkingu. Frásagnarhefð Íslendingar spilar einnig inn í þennan iðnað, enda þurfa allir tölvuleikir vandaðan og sannfærandi söguþráð,“ segir Ólafur Andri. Við þetta bætir hann að öflugt háskólasamfélag og rannsóknir og þróun skipti einnig miklu máli, enda sé leikjaiðnaðurinn þekkingariðnaður. Bæði Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands bjóða upp á áfanga í hönnun og þróun tölvuleikja.

Þá segir Ólafur Andri að framleiðsluþættir tölvuleikja séu mun ódýrari í dag heldur en fyrir 20 árum vegna framfara í tækni.

„Ólíkt flestum atvinnugreinum þarfnast framleiðsla á tölvuleikjum ekki kostnaðarsamra fjárfestinga eða aðfanga á borð við hráefni og náttúruauðlindir til að skapa verðmæti. Það þarf ekki að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar til að komast af stað í þessum iðnaði. Fólk getur einfaldlega hlaðið niður vélum og tólum og búið til tölvuleik eða forrit og selt það á netinu með mjög litlum kostnaði. Þetta hefur leitt til sprengingar í nýsköpun í leikjagerð. Það eina sem þarf í dag til að komast af stað er góð hugmynd – og ávinningurinn getur orðið ævintýralegur,“ segir Ólafur Andri.

Hvað samkeppnisumhverfið varðar segir Ólafur Andri það vera mjög sérstakt. „Það er innbyrðis samkeppni um mannauð, en samgangur og samvinna meðal íslensku fyrirtækja er meiri en gengur og gerist erlendis. Það hjálpast allir að. Ástæðan er kannski sú að fyrirtækin eru lítil og viðskiptavinirnir eru nánast allir erlendis. Tölvuleikjaiðnaðurinn er aðallega að keppa við Norðurlöndin, sérstaklega Finnland og Svíþjóð, sem og lönd á borð við Kanada og Bretland um mannauð og fyrirtæki. En það er mjög erfitt að keppa við þessi lönd því þau eru með gríðarlega skattaafslætti, styrki og ívilnanir, ólíkt okkur,“ segir Ólafur Andri.

Fjármagnsskortur stærsta hindrunin

Ólafur Andri segir að það sem standi íslenska tölvuleikjaiðnaðinum fyrir þrifum sé vöntun á fjármagni. „Það er erfitt að fá fjármagn inn í tölvuleikjaiðnaðinn á Íslandi. Það tengist annars vegar efnahagsástandinu og hins vegar eðli atvinnugreinarinnar.“