Verðandi viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, milljarðamæringurinn Wilbur Ross, segir ekki marktækt að tala um verndarstefnu í viðskiptum, og segir hann einangrunarstefnu vera notað sem skammaryrði.

„Við erum með verslun og viðskipti, það er til gáfuleg verslun og svo er heimskuleg verslun. Við höfum verið að gera heilmikið af heimskulegri verslun,“ segir Ross sem gagnrýndi TPP samninginn um fríverslun við lönd í kringum Kyrrahafið en Trump hefur sagt að um sé að ræða lélegan samning.

Samningurinn er mikilvægasti hlekkurinn í markmiði Obama forseta um að ná auknum ítökum í Asíu, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fagna Kínverjar því að samningurinn verði líklega ekki að veruleika.

„Vandamálið með fríverslun innan ákveðinna heimshluta er að valtað er yfir þig af fyrsta landinu, síðan semurðu við næsta land og aftur er valtað yfir þig, og svo ferðu til þriðja landsins og þá er valtað aftur yfir þig.“