Hópur fjárfesta sem er leiddur af Einari Erni Jónssyni, hefur eignast 90% hlut í Emmessís. Fjárfestahópurinn samanstendur af fyrrnefndum Einari Erni, sem er oftast kenndur við Nóatún, Þóri Erni Ólafssyni og Gyðu Dan Johansen sem standa að fjárfestingarfélaginu Hnetutoppur ehf.

Í kjölfar hlutafjáraukningar nýrra hluthafa kemur einnig inn Ragnari Birgissyni, sem var áður framkvæmdastjóri fyrirtækisins og SPB hf, sem er í eigu ESÍ, Eignasafns Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu um kaupin.

„Saga Emmessíss liggur aftur til ársins 1960. Um áratugur er liðinn frá því að AREV N1 keypti fyrirtækið af Mjólkursamsölunni og reksturinn hefur frá þeim tíma verið algjörlega aðskilinn og er Mjólkursamsölunni óviðkomandi með öllu. Um 30 manns starfa hjá fyrirtækinu og það veltir um 850 milljónum króna í ár,“ segir í fréttatilkynningunni.

Í DV er haft eftir heimildarmönnum að þessi fjárfestahópur hafi farið inn í hluthafahópinn í ágúst eftir að þessir aðilar höfðu lagt til nýtt hlutafé upp á 50 milljónir króna. Fyrirtækið var áður í eigu Sparisjóðabankans (SPB) og verðbréfafyrirtækisins Arev.

Rekstur félagsins hefur verið nokkuð þungur síðastliðin ár og félagið hefur farið í gegnum félagslega endurskipulagningu. Það var til að mynda rekið með 109 milljón króna tapi í fyrra og með 52 milljón króna tapi þar á undan.