Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group ásamt framtakssjóðnum SÍA III kaupa Gámaþjónustuna og dótturfélög þess fyrir milljarða króna.

Verða Jón og Einar Örn með um 35% hlut í félaginu sem kaupir Gámaþjónustuna að því er segir í Fréttablaðinu í dag.

Koma að uppbyggingu hótels við Hörpu

Framtakssjóðurinn SÍA III er 13 milljarða sjóður sem sjóðstýringafyrirtækið Stefnir, dótturfélag Aron banka, stýrir,  en það hefur frá því að hann var stofnaður sumarið 2016 staðið í einni annarri stórri fjárfestingu, sem er uppbygging lúxushótelsins Marriott Edition við Hörpu.

Í sjóðnum eru um 40 hluthafar og eru það aðallega lífeyrissjóðir, tryggingafélög og aðrir fagfjárfestar.

Benóný Ólafsson stærsti eigandinn

Gámaþjónustan velti á árinu 2015 4,45 milljörðum ef öll samstæðan er tekin með, en félagið er að rúmlega 60% í eigu Benóný Ólafssonar stofnanda félagsins, en á þeim tíma áttu aðrir hluthafar allir minna en 3,7% hlut.

Ebitda hagnaður félagsins árið 2015 nam 524 milljónum króna sem er svipuð upphæð og árið áður.

Allt að 4 milljarða kaup

Félagið var sett í söluferli á síðasta ári, en Fréttablaðið áætlar að heildarkaupverðið sé um 3,5 til 4 milljarðar króna. Heildarskuldir félagsins voru um 3,6 milljarðar í árslok 2015 og heildareignir þess um 6 milljarðar króna.

Jón stýrir fjárfestingum Helgafells eignarhaldsfélags. Það er í eigu Bjargar Fenger eiginkonu hans, Ara Fenger og Kristínar Fenger Vermundsdóttur, sem öll eiga jafnstóran hlut í félaginu sem á eignir sem eru rúmir tveir milljarðar króna. Félagið er í hópi stærstu hluthafa TM og N1.

Einar Örn er einnig meðal stærstu hluthafa TM, en fjárfestingarfélag hans, Einir ehf. á 2,76% hlut í félaginu, en samanlagt eiga Einir og Helgafell um 9% hlut í TM. Einar var kjörinn í stjórn TM á nýliðnum aðalfundi félagsins.