Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist gera athugasemdir við ýmislegt í drögum verkefnisstjórnar að rammaáætlun og þá sérstaklega að ekki sé farið eftir því sem segi í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.

„Þar er kveðið mjög skýrt á um að það beri að horfa til náttúru og menningarminja en einnig samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa," segir Hörður. „Það hefur ekki verið lokið greiningu á samfélagslegu áhrifunum og ekki heldur þeim efnahagslegu og þá er ég helst að tala um greiningu á jákvæðum áhrifum. Það er mjög sérkennilegt hvað þessir þættir fá lítið vægi því það er einmitt vegna þeirra sem við erum yfir höfuð að skoða nýja virkjunarkosti.

Það þarf að greina hvaða þarfir eru til staðar og hvaða jákvæðu áhrif það hefði að uppfylla þær þarfir og hvaða áhrif það hefði að gera það ekki. Það er raunverulega eingöngu horft á verkefnin út frá neikvæðum áhrifum. Lögin kveða á um að horfa beri á heildaráhrifin en það er ekki gert í þessum drögum heldur bara horft á umhverfismálin.

Ýmsir af þeim kostum sem settir hafa verið í verndarflokk ættu frekar heima í biðflokki. Það er verið að taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir án þess að þetta hafi verið metið til fulls," segir Hörður sem segist ekki vilja nefna einstaka virkjunarkosti í þessum efnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .