Frumkvöðlinum Elizabeth Holmes hefur verið lýst sem næsta Steve Jobs . Hin unga framkvæmdastýra sprotafyrirtækisins Theranos sem sérhæfir sig í skilvirkari og auðveldari blóðprufum hefur setið undir mikilli gagnrýni síðustu daga eftir að Wall Street Journal (WSJ) birti skæða umfjöllun um að fyrirtæki hennar stæði ekki undir eigin yfirlýsingum um áreiðanleika og getu.

Theranos, sem Holmes stofnaði árið 2003, hefur það að markmiði að umbylta blóðprufumarkaðnum í Bandaríkjunum, en hann er metinn á einhverja 75 milljarða dala árlega. Theranos er eins konar einhyrningur, eins og það er kallað á fjárfestaslangri - sprotafyrirtæki sem er ekki skráð á hlutabréfamarkað en metið á gífurlegar fjárhæðir. Fyrirtækið er metið á heilan milljarð dala.

Umfjöllun WSJ þóttist afhjúpa þá staðreynd um tækninýjungar Theranos að þær væru ekki aðeins óáreiðanlegar, heldur byggðu þær að mestu á tækni frá öðrum fyrirtækjum. Holmes hefur að sjálfsögðu neitað þessu harðlega en þrátt fyrir það halda efasemdir áfram að hlaðast upp.

Sumir hafa spurt sig hvort Holmes fái sérlega mikla gagnrýni fyrir að vera kvenkyns - og hvort ungur maður í sömu stöðu hefði þurft að kljást við svo miklar árásir. Óháð því er alveg víst að verðmat á fyrirtækinu lækkar eitthvað talsvert ef ásakanir WSJ reynast sannar.

Ásakanirnar eru ekki það eina sem gerir Theranos sérstakt fyrirtæki. Meðalaldur stjórnarmeðlima fyrirtækisins er 76 ár, og af þeim tíu eru aðeins tvö þeirra með nokkra reynslu af læknaiðnaðinum. Meðal stjórnarmeðlima má telja t.d. George Schultz og Henry Kissinger, en þeir hafa báðir verið utanríkisráðherrar bandaríska ríkisins.