Hið opinbera hefur afskrifað meira af innviðum en það hefur fjárfest í síðustu sjö ár, á sama tíma og mikil aukning er í fjölda ferðamanna. Brýnt er að einkaaðilar komi í auknum mæli að uppbyggingu, segir Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA.

Gísli segir ekki hægt að fresta lengur brýnni fjárfestingu í innviðum. „Fjármunamyndun síðustu sjö árin hefur verið neikvæð í fyrsta skipti síðan 1945,“ segir Gísli í samtali við Viðskiptablaðið en það þýðir að verið sé að fresta óhjákvæmilegum framkvæmdum, eins og í samgöngumannvirkjum. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi hans á fundi Sjávarklasans um flutningalandið Ísland.

Gísli segir að Íslendingar séu mun aftar á merinni en aðrar þjóðir í Evrópu þegar kemur að samstarfi einkaaðila og hins opinbera í uppbyggingu innviða. Því verði að breyta. „Hér hafa fá skref verið stigin, en vegna vaxandi fólksfjölda, aukningar ferðamanna, skuldastöðu ríkis og sveitarfélaga, minnkandi útgáfu verðtryggðra eigna og uppsafnaðri þörf á innviðafjárfestingum þá verður hið opinbera að hleypa einkaaðilum að,“ segir Gísli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .