Með kjöri Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, fjárfestis og eins af stærstu hluthöfum VÍS, sem stjórnarformanns tryggingarfélagsins hafa einkafjárfestar náð völdum í stjórn VÍS. Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins , gerir þessu ítarleg skil.

Talsverð átök hafa verið innan stjórnar VÍS á undanförnum misserum, sem hafa bæði snúist um ólíkar áherslur fulltrúa lífeyrissjóðanna annars vegar og helstu einkafjárfesta VÍS hins vegar. Samtals hafa fimmtán manns setið í stjórn félagsins frá byrjun árs 2015, og hafa fjórir einstaklingar gengt starfi stjórnarformanns á sama tíma. Eins tíð stjórnarskipti á svo skömmum tíma er einsdæmi á meðal skráðra félaga í Kauphöllinni.

Einkafjárfestar ná völdum á stjórninni

Hópur sem á samanlagt um 27 prósenta hlut í VÍS sem samanstóð einkum af hjónunum Svanhildi og Guðmundi Erni Þórðarsyni, Sigurði Bollasyni, fjárfestingafélaginu Óskabeini og sjóðstýringarfyrirtækinu Stefni, vildi ná fram breytingum á stjórn og stefnu félagsins.

Svanhildur hafði uppi áform að taka við sem formaður af Herdísi Dröfn Fjelsted, sem var studd af Lífeyrissjóði verzlunarmanna, stærsta hluthafa VÍS. Svanhildur átti fund með stærstu hluthöfum VÍS þar sem hún útlistaði sínar áherslur og upplýsti þá að hún myndi sækjast eftir formennsku.

Á sama tíma taldi Herdís sig aftur á móti hafa stuðning meirihluta nýrrar fimm manna stjórnar að gegna áfram formennsku í félaginu. Það fór hins vegar á annan veg - eins og áður hefur komið fram. Einnig hafði Þórður Már Jóhannesson, fjárfestir og fyrrum forstjóri Straums Burðaráss, jafnframt kannað þann möguleika að gefa kost á sér í framboð stjórnar og hitt hluthafa félagsins. Ekkert varð úr þeim áformum og ákvað Þórður Már að gefa ekki kost á sér, skömmu áður en fresturinn rann út.

„Slíkt getur ekki talist góðir og tilhlýðilegir stjórnarhættir“

Tveimur vikum eftir aðalfund VÍS, eða þann 15. mars sagði Herdís sig úr stjórn félagsins. Í bréfi sem hún sendi til ýmsa hluthafa félagsins, sagði hún ákvörðun Herdísar „vonbrigði“ en að hún hafi verið meðvituð um að Herdís hefði haft „væntingar“ um að vera áfram stjórnarformaður. „Það er mín skoðun þegar fólk er í stjórn félags […] að þá sé óeðlilegt að gera þá kröfu að ef viðkomandi fái ekki stól formanns þá hafi hann ekki áhuga á að starfa að málefnum félagsins. Slíkt getur hreinlega ekki talist góðir og tilhlýðilegir stjórnarhættir,“ segir í bréfi Svanhildar.

Herdís brást við bréfi Svanhildar síðar sama dag, þar sem kom fram að það hafi allan tímann verið skýrt af hennar hálfu að hún hafi sóst eftir að gegna áfram formennsku í stjórn félagsins og taldi sig hafa stuðning meirihluta stjórnar til þess. „Á fyrsta fundi stjórnar kom í ljós að sá stuðningur reyndist ekki vera til staðar. Það fylgir því mikil ábyrgð að sitja í stjórn tryggingafélags og afar mikilvægt að innan stjórnar ríki algert traust um vinnubrögð og starfshætti stjórnar. Um þetta varð ágreiningur í aðdraganda aðalfundar og á fyrsta fundi. Ef traust er ekki til staðar er ekki hægt að ætlast til stjórnarsetu af viðkomandi stjórnarmanni,“ kom fram í bréfi Herdísar.

Sjá möguleika í Kviku

Heimildarmenn Markaðarins segja að þær breytingar sem hafa orðið á stjórn VÍS auka líkur á því að tryggingafélagið muni falast eftir meirihluta í Kviku fjárfestingabanka. Nýverið var tilkynnt um kaup VÍS á 22 prósenta hlut í Kviku, en áður hafði Sigurður Bollason og hjónin Svanhildur og Guðmundur, sem eiga samanlagt 16 prósenta hlut í VÍS, keypt 15 prósenta hlut í fjárfestingabankanum.

Í fyrrnefndu bréfi Svanhildar er bent á að með kaupum VÍS á stórum hlut í Kviku hafi verið „opnaðar dyr á frekar útvíkkun“ á starfsemi tryggingarfélagsins.