Tyrknesk yfirvöld fyrirskipuðu handtöku nærri 200 manns, þar á meðal einstaklinga sem eru leiðandi í viðskiptalífinu og lagði hald á eignir þeirra í frekari rannsóknum á misheppnaðri valdaránstilraun í landinu í síðasta mánuði.

Fyrirtæki sögð fjármagna hreyfingu Gullen

Forsetinn, Tayyip Erdogan hefur heitið því að stöðva rekstur fyrirtækja sem hafa tengsl við klerkinn Fethullah Gulen sem staðsettur er í Bandaríkjunum, en hann kennir honum um valdaránstilraunina 15. júlí síðastliðinn. Lýsir hann víðtæku neti skóla, fyrirtækja og hjálparsamtaka tengda við klerkinn sem „hryðjuverkahreiðra.“

Í morgun réðust lögreglumenn úr fjármálaglæpadeild lögreglunnar inn í um 200 heimili og fyrirtæki í kjölfar þess að ríkissaksóknari gaf út 187 handtökuskipanir. Tyrkneskumælandi útgáfa CNN sagði að 60 manns hefðu verið handteknir. Lögreglan leitar að mörgum frammámönnum í viðskiptalífinu sem grunaðir eru um að fjármagna hreyfingu Gullen.

Sögð hryðjuverkasamtök en lýsa yfir stuðningi við umburðarlyndi og góðgerðarstarf

Gullen sjálfur fordæmir valdaránstilraunina og hafnar ásökunum um tengsl við hana, en hann var fyrrum bandamaður Erdogan. Hann hefur búið áratugum saman í útlegði í Bandaríkjunum. Hreyfing Gullen, líkt og klerkurinn, hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við samtal og umburðarlyndis milli trúarbragða, vísindalegs grunns fyrir menntun, fjölflokkalýðræði og góðgerðarstarfi.

Tyrknesk yfirvöld hafa skilgreint samtök hans og óformlegt net stofnana og fyrirtækja tengd honum sem hryðjuverkasamtök.

Tvö Fortune 500 fyrirtækjum lokað

Meðal þeirra fyrirtækja sem lögregluyfirvöld hafa í sigtinu eru tvö á lista yfir Fortune 500 fyrirtæki, fataframleiðandinn Aydinli Group og fataverslunarkeðjan Eroglu Holding. Ekki var svarað í síma hvorugs fyrirtækisins við eftirgrennslan í dag.

Segja yfirvöld að 4.272 fyrirtæki með tengsl við Gulen hafa verið lokuð, en í heildina hafa 40.029 manns verið handtekin síðan valdaránstilraunin átti sér stað. 79.900 opinberir starfsmenn í lögreglu, her og borgaralegum stofnunum hafa verið vísað úr starfi.

Vilja aðgerðir erlendis, en sannanir vantar

Yfirvöld í Tyrklandi vilja einnig að lokað sé á starfsemi tengda Gullen í öðrum löndum, en bæði Evrópusambandið og Bandaríkin hafa lýst yfir áhyggjum yfir hve víðtækar aðgerðirnar hafa verið, því þær gætu náð til fólks sem hefði ekkert með valdaránstilraunina að gera. Að sama skapi fara bandarísk stjórnvöld fram á sannanir um aðild Gullen áður en til mögulegs framsals hans til Tyrklands gæti orðið.