*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 8. október 2017 18:02

Einkaleyfadeilur líkjast blóðhefnd

David Friedman skoðar meðal annars hvernig hægt er að tækla misnotkun einkaleyfalöggjafarinnar í nýrri bók sinni.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Hægt er að draga ýmsan lærdóm af lagakerfum fornaldar, þar á meðal hvernig á að tækla misnotkun einkaleyfalöggjafarinnar, að sögn hagfræðingsins, eðlisfræðingsins og lögspekingsins Davids Friedman, sonar nóbelsverðlaunahafans Miltons Friedman.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um kom Friedman og hélt fyrirlestra hér á landi í Háskóla Íslands og á ráðstefnu Frjálslyndra stúdenta í Háskólanum í Reykjavík síðustu helgi þar sem hann ræddi um nýja bók sína, Lagakerfi mjög ólík okkar (e. Legal systems very different from ours).

David Friedman skoðar í bók sinni lagakerfi allt frá Kína til Sómalíu, í Grikklandi til forna, hjá indíánum í Ameríku, stjórnkerfi 18. aldar Pírata, sem og núverandi notkun blóðhefndarfyrirkomulags meðal Róma fólks og fangelsisgengja, auk lagakerfis Amish-fólksins en einnig eins og áður segir íslenska þjóðveldið.

„Blóðhefndarfyrirkomulagið er enn við lýði í nútímasamfélagi, þótt fólk augljóslega beiti ekki lengur öxum fyrir sig, en eitt af því sem ég skoða í bókinni er hvernig einkaleyfadeilur fyrirtækja virka og hve skylt það er blóðhefndarfyrirkomulaginu,“ segir Friedman.

„Gerum ráð fyrir að ég sé Applefyrirtækið og að mögulega sé Samsung að brjóta einhver af okkar einkaleyfum svo ég tala við lögfræðinga mína. Þeir segja mér að við gætum mögulega kært þá en við munum líklega tapa. Þá gæti ég sagt að það væri allt í lagi, því ef við kærum þá, verður fólk tregara til að kaupa símana þeirra, því ef við vinnum gætu þeir þurft að fjarlægja hluti úr símum sínum, sem geti leitt til þess að við seljum fleiri síma meðan á deilunum stendur. En þá kemur í ljós vandi við þessa nálgun, því Samsung gæti einnig haldið því fram að við séum að brjóta á þeirra einkaleyfum, sem dregur úr hvata mínum til að kæra þá, því þeir gætu svarað í sömu mynt.“

Að mati Friedmans er þetta grundvallarröksemdin í því að menn völdu að halda friðinn í blóðhefndarfyrirkomulagi. Stundum voru átök sem upp komu þó leyst með því að hafa sáttasemjara til að skera úr um mál eins og í íslenska þjóðveldinu, en hann segir að í nútímanum séu til fyrirtæki sem virki eins og Íslendingur á þjóðveldisöld sem hafi verið með fullkomna brynju.

„Gerum ráð fyrir að þú sért með fyrirtæki sem eigi einkaleyfi, en noti þau ekki. Það eru starfandi fyrirtæki sem kaupa upp einkaleyfi til að nota sem hótun um að kæra önnur fyrirtæki nema þau greiði þeim fé,“ segir Friedman.

„Andstæðingar slíkra fyrirtækja hafa kallað þau einkaleyfatröll en vandinn er að þau takmarka sig ekki við mál þar sem þau hafa sterka kröfu um brot á einkaleyfum þeirra. Þau fara kannski ekki gegn stórfyrirtækjum eins og Apple, sem myndu berjast harkalega gegn þeim því þau vilja tryggja orðspor sitt.

En segjum sem svo að þú sért með lítið frumkvöðlafyrirtæki og einkaleyfatröll hafi samband því það telji sig geta fært rök fyrir því að þú sért að brjóta á einkaleyfi sem það eigi. Fyrirtækið veit vel að það eru líkur á því að það tapi, en bendir á að hvort heldur sem er þá muni það kosta þig töluverða fjármuni að berjast gegn því, sem og ef það vinni muni það kosta þig fyrirtækið þitt. Síðan bjóða þau þér að borga hóflegt afgjald fyrir notkun á einkaleyfinu í staðinn fyrir allan þennan kostnað.“

Þetta segir Friedman vera dæmi um lögfræðilega fjárkúgun, en hann sjái lausn á þessum vanda, til að mynda í löggjöf Forngrikkja. „Þar gat hver sem er höfðað mál gegn lögbrjótum og var einn hvatinn til lögsókna sá að sá sem sótti aðra til saka fékk greitt hluta af sektinni. En það skapar þann vanda að ef þú ert ríkur en óvinsæll getir þú verið fórnarlamb misnotkunar kerfisins. Þeirra lausn var hins vegar sú að ef þú fékkst ekki meira en ákveðið hlutfall kviðdómenda til að kjósa með sakfellingu, þá þurfti saksóknarinn sjálfur að greiða skaðabætur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim