Ómar Svavarsson, forstjóri Securitas, segir að í öllum þeim tækniframförum sem orðið hafa nýverið á sviði eftirlits felist óhjákvæmilega breytingar á eðli einkalífsins.

Hann ítrekar að eftirlitsbúnaður sem settur sé upp á vinnustöðum sé ávallt notaður í samráði við og með samþykki þeirra starfsmanna sem málið varðar. „Þetta er allt til að tryggja meira öryggi starfsmanna og þeirra sem þurfa á því að halda. Ef það kemur til einhvers atburðar er fyrst og fremst verið að hjálpa þér sem starfsmanni, og fyrirtækinu, til að sýna fram á hvað gerðist. Þetta hefur í lang lang flestum tilvikum komið til góðs,“ segir hann, og tekur fram að engar kvartanir hafi borist vegna þess eftirlits sem fyrirtækið býður upp á.

Þá veiti persónuverndarlög starfsmönnum og öðrum víðtæka vernd. „Ég hef ekki hitt neitt fyrirtæki öðruvísi en að það ætli í öllu að fara eftir lögum og reglum: eyða gögnum eftir tiltekinn tíma og vera ekki með myndavélar eða annars konar búnað þar sem þeirra er ekki þörf. Við gætum þess svo til dæmis að alls staðar á hvíldarsvæðum og öðrum sambærilegum svæðum sé ekkert eftirlit.“ Hann segist þó skilja áhyggjur fólks, málefnið sé mikilvægt og umræðan þörf. „Ég held að þetta muni leita ákveðins jafnvægis.“

Nánar er rætt við Ómar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .