Afkoma Íslandspósts af einkaréttarvarinni póstþjónustu nam allt að 850 milljónum króna árið 2016. Samkeppnisreksturinn skilaði hins vegar yfir 700 milljóna króna tapi. Umtalsverður hagnaður hefur verið af einkaréttarþjónustu Íslandspósts undanfarin ár, en stjórnendur Íslandspósts segja rekstrarafkomuna hafa verið óásættanlega.

Íslenska ríkið fer með einkarétt á dreifingu bréfa sem eru upp að 50 grömmum í þyngd. Íslandspóstur annast einkarétt ríkisins. Einkaréttinum fylgir alþjónustuskylda, sem felst í því að tryggja öllum landsmönnum jafnan að­gang að póstþjónustu, þó án þess að hafa til þess einkarétt. Önnur póstþjónusta, svo sem fjölpóstur og flutningaþjónusta, fer fram á samkeppnismarkaði.

Tekjum af þjónustu í einkarétti er meðal annars ætlað að standa undir svokallaðri alþjónustubyrði. Það er kostnaður sem fellur á Íslandspóst vegna alþjónustu. Í gjöldum einkaréttar er því meðtalinn sá kostnaður sem einkarétti er heimilt samkvæmt lögum um póstþjónustu að nið­ urgreiða vegna samkeppni innan alþjónustu. Að öðru leyti er Íslandspósti óheimilt að stunda víxlniðurgreiðslur; að nýta sjóði sem stafa frá einkarétti til að niðurgreiða samkeppni við einkafyrirtæki.

Ársskýrslur Íslandspósts geyma yfirlit yfir afkomu starfsþátta í rekstri fyrirtækisins. Starfsþættirnir eru þrír: einkaréttur innan alþjónustu, samkeppni innan alþjónustu og samkeppni utan alþjónustu. Jafnframt er þar að finna afkomu eignareksturs, en undir þann lið eru færðar reiknaðar tekjur vegna ávöxtunarkröfu fjárbindingar rekstrarfjármuna, fjármagnsliðir, einskiptisliðir og afkoma dótturfélaga. Hvergi er þó birt opinberlega aðgreining á tilfærslum á rekstrarkostnaði milli starfsþátta, sem og sundurliðum á eignarekstri eftir starfsþáttum. Illmögulegt er því að komast að raunafkomu Íslandspósts af einkaréttarþjónustu annars vegar og þjónustu á samkeppnismörkuðum hins vegar í ársskýrslum félagsins.

Samkvæmt ársskýrslu Íslandspósts fyrir árið 2016 nam afkoma af einkarétti tæplega 500 milljónum króna. Samkeppnisrekstur innan alþjónustu skilaði tapi upp á tæplega 780 milljónir, sem skýrist að stórum hluta vegna erlendra póstsendinga samkvæmt Póst- og fjarskiptastofnun (PFS). Þá skilaði annar samkeppnisrekstur hagnaði upp á 160 milljónir. Afkoma eignareksturs nam 251 milljón. Var endanleg afkoma ársins 2016 því tæplega 121 milljón.

Árið 2016 nam alþjónustubyrði Íslandspósts 200-250 milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá PFS, en þar er byggt á rekstrarárunum 2013-2014. Hlutur einkaréttar í eignarekstri var 100 milljónir. Þannig fæst að raunafkoma einkaréttar var tæplega 850 milljónir árið 2016, en tap af samkeppnisrekstri 715 milljónir.

Um er að ræða verulegt frávik frá fyrri árum. Milli 2013 og 2015 voru tekjur einkaréttar að meðaltali 0,03% yfir gjöldum og afkoma einkaréttar á bilinu -18 milljónir upp í 13 milljónir. Árið 2016 voru tekjur einkaréttar hins vegar tæplega 19% umfram gjöld og bókfærð afkoma einkaréttar tæplega hálfur milljarður. Samkvæmt upplýsingum frá PFS felst frávikið meðal annars í mikilli aukningu á erlendum póstsendingum, lækkun kostnaðar vegna fækkunar útburðardaga í dreifbýli og lægri kostnaði vegna ýmissa hagræðingaraðgerða.

Viðvarandi taprekstur af samkeppnisrekstri

Taprekstur hefur verið á Íslandspósti undanfarin ár, en milli 2011 og 2016 hefur félagið tapað rúmlega 250 milljónum króna. Á því tímabili hefur Íslandspóstur aðeins skilað hagnaði tvisvar og hefur arðsemi eigin fjár félagsins verið að meðaltali neikvæð. Með því að púsla saman upplýsingum úr ársskýrslum Íslandspósts og opinberum gögnum frá PFS sést að umtalsverður hagnaður hefur verið af starfsemi einkaréttar undanfarin ár, en að gríðarlegt tap hafi verið á samkeppnisrekstrinum.

Þjónusta Íslandspósts sem fellur undir einkarétt skilaði tæplega 550 milljónum í hagnað á árunum 2011 til 2016. Sé tekið tillit til millifærslna á rekstrarkostnaði milli starfsþátta, alþjónustubyrði sem einkarétti er heimilt að niðurgreiða – sem nemur í kringum 300 milljónum á ári samkvæmt sjálfstæðu mati PFS eða í kringum 1,8 milljörð­ um króna til samans frá 2011 – og hlutar einkaréttar í eignarekstri árin 2014 og 2016 má áætla að hagnaðurinn nemi að minnsta kosti 2,5 milljörðum.

Samkeppnisrekstur Íslandspósts skilaði á hinn bóginn 2 milljarða króna tapi á sama tímabili. Að teknu tilliti til millifærslna og afkomu dótturfélaga nemur tapið tæplega 4 milljörðum, en rekstur dótturfélaga fellur í raun undir samkeppnisrekstur. Inn í þessa tölu vantar hlut samkeppnisrekstrar í öðrum eignarekstri, sem kann að minnka tapið um nokkur hundruð milljónir. Einnig er ekki tekið tillit til þeirrar meðgjafar sem taprekstur dótturfélaga, til dæmis ePósts, hefur fengið í gegnum vaxtalausa fjármögnun frá móðurfélaginu.

Íslandspósti er óheimilt að rétta af taprekstur á þjónustu sem rekin er í samkeppni við einkafyrirtæki með fjármagni frá einkaréttarvarinni þjónustu. Ekki liggur fyrir hvaða fjármagn er notað til að halda rekstri Íslandspósts gangandi. Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, hefur hafnað því að félagið nið­ urgreiði samkeppnisrekstur með fé með einkaréttinum. Jafnframt hefur Ingimundur sagt að ef ekki væri fyrir samkeppnisrekstur Íslandspósts væri fyrirtækið rekið með gríðarlegu tapi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .