Fjármálaverkfræðingurinn Lilja Björk Einarsdóttir var á dögunum ráðin nýr bankastjóri Landsbankans. Lilja er ekki ókunn starfsemi bankans því hún hefur starfað fyrir Landsbanka Íslands í London frá árinu 2005- 2008 og sá síð- an um endurheimt eigna gamla bankans á árunum 2008 til 2016. Hún segir starfið leggjast gríðarlega vel í sig og vísar á bugum ummælum á samfélagsmiðlum sem tengja hana hinum víðfrægu Icesave-reikningum.

Engar áherslubreytingar til að byrja með

Lilja er að vonum ánægð með ráðninguna og segir starfsfólk sem hún hafi hitt taka mjög vel á móti sér. „ Ég er búin að ganga um bankann í morgun og kynna mig fyrir starfsfólki og tilfinningin er mjög góð, í raun eins og ég sé að koma heim og að góðu búi. Ég kem til með að hefja störf 15. mars nk. en það er skemmtilegt að hafa smá tíma til að hitta starfsfólk svo það geti séð framan í mig og ég geti sagt þeim aðeins frá mér,“ segir Lilja.

Lilja mun nýta tímann þar til hún byrjar til að ganga frá lausum endum. „Ég er með nokkur verkefni sem ég þarf að ganga frá en mig grunar að þessi tími þar til ég hef störf muni líða mjög hratt og áður en ég veit af verð ég komin aftur. Ég reyni að nýta þennan tíma eins vel og ég get og ef tækifæri gefst mun ég reyni ég að koma mér inní starfið áður en ég byrja að fullu í mars.“

Hún segist ekkert geta sagt til um áherslubreytingar í starfsemi bankans að svo stöddu. „Ég þarf að sjá hver staðan er fyrst áður en ég mynda mér skoðun á því. Það verður mitt fyrsta verk, að kynna mér í þaula alla starfsemina. Það þýðir ekkert að tala um breytingar fyrr en maður veit hver staðan er og það er nauðsynlegt að fara af yfirvegun yfir slíkt.“

Endurheimti eignir til að greiða upp Icesave

Einstaka ummæli á samfélagsmiðlum hafa skotið upp kollinum eftir að tilkynnt var um ráðningu Lilju, sem segja hana m.a. tengda hinum víðfrægu Icesave reikningum. Hún vísar slíkri gagnrýni á bug. „Ég hafði enga sérstaka aðkomu að Icesave aðra en þá að ég var starfsmaður bankans í London á þeim tíma sem reikningarnir voru fyrst kynntir. Mitt starf fyrir hrun var margþætt en meðal annars að stýra rekstrardeildum og uppbyggingu þeirra. Eftir hrun stýrði ég endurheimt eigna fyrir bankann í London og ég dreg ekkert úr því að ég er gríðarlega stolt af þeim árangri sem þar náðist. Þær eignir voru notaðar til að greiða upp Icesave skuldina og þetta tókst vonum framar og mun betur en leit út fyrir í upphafi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .