Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og formaður Samtaka iðnaðarins, gerir ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir fari hægt af stað í erlendum fjárfestingum eftir afnám hafta og vonast til þess að vextir muni lækka.

„Ég get ekki annað en þakkað ríkisstjórninni fyrir að stíga þessi skref núna,“ segir Guðrún. „Afnám hafta var nú eða aldrei. Þetta er eins og heilbrigðisvottorð fyrir íslenskt efnahagslíf og styrkir grunn þess enn frekar.

Það að lífeyrissjóðirnir geti nú farið út með ótakmarkað fé er lífsnauðsynlegt skref fyrir þá. Innan hafta var sjóðunum nauðbeygður sá kostur að fjárfesta nær eingöngu í íslensku hagkerfi. En nú geta þeir dreift áhættu meira en áður utan Íslands. Ég tel aftur á móti að lífeyrissjóðirnir muni ekki ryðjast út úr hagkerfinu með látum og að þeir fari fremur hægt af stað. Það gæti valdið einhverjum vonbrigðum, en erlendir markaðir eru viðkvæmir. Eftir að hafa verið fyrir utan hið al­þjóðlega fjármálakerfi í átta ár erum við kannski svolítið eins og barn sem þarf að læra að ganga aftur. Með tíð og tíma mun kerfið þreifa fyrir sér og taka vel ígrundaðar ákvarðanir um það hvar sé best að ráðstafa fé. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er erfið þegar fjármagnið er svona dýrt fyrir okkur, en hjá Samtökum iðnaðarins teljum við að með afnámi hafta séu að skapast skilyrði fyrir lækkun vaxta,“ segir Guðrún.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .