Óbirt skýrsla sem unnin var upp úr viðtölum sem tekin voru við gagnaversaðila sýnir að fyrirtækin veigra sér við því að koma með viðskipti sín hingað til lands vegna skorts á gagnatengingum við landið. Einar Hansen Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu segir gagnastrengi við landið eins og hverja aðra innviði sem krafa er gerð um í nútímaumhverfi gagnavera.

Skýrar niðurstöður: Það skortir tengingar

Spurður hvort enginn starfsmaður Íslandsstofu hafi það að meginhlutverki að markaðssetja Ísland sem stað fyrir gagnaver segir hann svo ekki vera en á Íslandsstofu eru þrjú og hálft stöðugildi sem hafa það hlutverk að laða til landsins erlenda fjárfestingu. „Nei, við erum bara með ákveðin verkfæri í höndunum og gerum okkar besta út frá þeim ramma sem okkur er skapaður í þeim efnum.

Til þess að gera okkur betur grein fyrir stöðu okkar og hvað mætti betur fara við markaðssetningu Íslands fyrir gagnaver þá fengum við breskt ráðgjafafyrirtæki til að taka svokölluð djúpviðtöl við gagnaversaðila sem við höfðum verið í viðræðum við með það að markmiði að fá þá til að setja upp starfsemi sína hér á landi. Í heildina tók fyrirtækið ítarleg viðtöl við 14 slík fyrirtæki og niðurstöðurnar voru mjög skýrar. Við þóttum vera með rétt skilaboð og vorum talin fagleg í allri okkar nálgun en það kom kannski á óvart að fyrirtækin sögðu að við öngruðum þau ekki nægilega oft, ef svo má að orði komast, í samanburði við aðrar þjóðir.

Það sem var hins vegar áhugaverðast var að af þessum 14 fyrirtækjum sem fóru í djúpviðtöl þá nefndu 12 þeirra skort á gagnastrengjum við landið sem vandamál. Það kom augljóslega fram að viðmælendurnir töldu flestir að þetta væri það sem helst stæði landinu fyrir þrifum. Einn þeirra lýsti því kannski best þegar hann sagði að þetta væri eins og að vera á Formúlu 1 bíl sem getur farið 250 mílur á klukkustund en það má keyra hann á sveitaveginum,“ segir Einar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.