Kristinn Þórðarson, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK), segir mikil menningarleg verðmæti fólgin í framleiðslu á íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsefni. Mikilvægt sé að auka framlög til Kvikmyndasjóðs, sem hafi verið sveltur frá hruni.

Kvikmyndasjóður er opinber sjóður sem styrkir íslenska kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð og heyrir undir menntamálaráðherra.

„Ríkið hefur staðið vel við bakið á kvikmyndaiðnaðinum undanfarin tuttugu ár, sérstaklega með endurgreiðslukerfinu. Í hruninu var Kvikmyndasjóðurinn hins vegar skorinn niður um 40% og hefur hann verið sveltur núna í um tíu ár. Sjóðurinn hefur lyft grettistaki með því litla fjármagni sem hann hefur úr að moða, en miðað við stærð greinarinnar er sjóðurinn allt of lítill, sérstaklega hvað varðar framlög til sjónvarpsefnis.

Kvikmyndasjóð sárvantar fjármagn ekki síst út frá menningarlegu sjónarmiði. Það er búið að setja á stofn nefnd um verndun íslenskrar tungu og þar held ég að íslensk kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð geti hjálpað mikið til,“ segir Kristinn.

„Efnisveitur sýna í auknum mæli efni á þeim tungumálum sem það er búið til, með enskum texta. Að geta sýnt milljónum manna efni á íslensku er okkur mjög dýrmætt. Það er hvergi betra að kynna og auglýsa íslenskt mál og menningu en í sjónvarpi. Íslenskar kvikmyndir og þættir eru eins og spegill á þjóðina og skipta máli fyrir sjálfstæði okkar í hinum stóra heimi. En smæð Kvikmyndasjóðs og reglur um skiptingu úr sjóðnum standa aukinni framleiðslu íslensks sjónvarpsefnis fyrir þrifum. Það er mikilvægt fyrir okkur að marka stefnu í þessum efnum og rækta Ísland sem vörumerki til að gera Ísland og íslenskt efni eftirsóknarverðara.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .