Um fjórðungur aðspurðra í nýrri könnun MMR segja að of mikill fjöldi flóttafólks fái hæli hér á landi, meðan 45% segja fjöldann hæfilegan.

30,9% telja svo að fjöldi þeirra sem fái hér hæli sé of lítill, en niðurstöðurnar eru nokkuð mismunandi eftir bæði kynjum, aldri, menntun og stjórnmálaskoðunum.

Helmingur kvenna taldi fjöldann hæfilegann

Töldu 28% karla fjölda flóttamanna sem fái hér hæli vera of mikinn meðan sama átti við um 20% kvenna, en jafnframt voru konur töluvert líklegri en karlar til að telja fjöldann hæfilegan, eða 50% á móti 40% karla.

Yngra fólk taldi líklegra en eldri að of fáum flóttamönnum væri veitt hæli eða 37% og 36% þeirra sem voru á aldursbilinu 18-29 ára annars vegar og 30-49 ára hins vegar.

Aldurshópurinn 50-67 ára var líklegastur til að telja að of margir fengu hér hæli eða 35% meðan þeir sem voru 68 ára og eldri voru líklegastir til að telja fjöldann hæfilegan eða um 54% þeirra.

Háskólafólk vill fleiri flóttamenn

Um 50% þeirra sem höfðu háskólapróf töldu að of fáir flóttamenn fengu hæli hér á landi en 9% þeirra töldu þá vera of marga.

Um 26% þeirra sem hafa framhaldsskólapróf og 15% með einungis grunnskólapróf töldu of fáa flóttamenn fá hér hæli, meðan 27% með framhaldsskólapróf og 38% með grunnskólapróf töldu þá of marga.

Fæstir Framsóknar og Sjálfstæðismenn telja of fáa flóttamenn

Ef málefnið er skoðað eftir stjórnmálaskoðunum voru stuðningsmenn Pírata líklegastir til að finnast of fáir flóttamenn fá hér hæli eða 57% þeirra meðan 12% þeirra fannst of margir fá hæli.

Stuðningsmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins voru ólíklegastir til að þykja að of margir fái hæli hér á landi eða 7% og 8% meðan hlutfall þeirra sem töldu hlutfallið hæfilegt vera 57% og 58%.

Sama hlutfall stuðningsmanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fannst sem of margir fengu hér hæli, eða 20%, meðan Vinstri grænir voru ólíklegastir til að finnast það eða einungis 8% þeirra.