Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,30% í viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1.737,99 stigum. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam tæpum 1,5 milljörðum króna.

Aðalvísitala skuldabréfa stóð nánast í stað, með lækkun sem nam 0,03% og stendur hún nú í 1.227,31 stigum. Heildarvelta á skuldabréfamarkaði kauphallarinnar nam 8,7 milljörðum króna.

Icelandair og N1 lækkuðu

Bréf Icelandair lækkuðu mest, eða um 0,95% í 256 milljóna viðskiptum. Fæst nú hvert bréf félagsins á 25,95 krónur. Einnig lækkuðu bréf í N1, lækkuðu þau um 0,52% í 155 milljóna viðskiptum og kostar nú hvert bréf félagsins 76,60 krónur.

Öll önnur bréf í kauphöllinni annað hvort hækkuðu eða stóðu í stað, langmesta hækkunin hlutfallslega var með bréf í Össur, eða 8,54% en það var í litlum viðskiptum sem námu 26 milljónum rétt rúmlega. Fæst nú hvert bréf félagsins á 445 krónur.

Hagar, Eimskip, Reginn og Vís hækkuðu

Mest viðskipti voru með bréf í Högum, sem hækkuðu um 0,78% í 470 milljóna króna viðskiptum. Fæst nú hvert bréf félagsins á 51,40 krónur.

Af bréfum úrvalsvísitölunnar má nefna að bréf Eimskipafélags Íslands hækkuðu um 0,96% í 50 milljón króna viðskiptum og fást bréfin nú á 314,50 krónur.

Af bréfum á Aðalmarkaði hækkuðu bréf Reginn um 0,62% í 149 milljón króna viðskiptum. Fæst hvert bréf félagsins nú á 24,50 krónur. Einnig hækkuðu bréf VÍS í 135 milljón króna viðskiptum, nam hækkunin 0,59% og er hvert bréf félagsins nú að andvirði 8,57 krónur. Mun minni viðskipti voru með önnur bréf eða verð þeirra stóðu í stað.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,4% í dag í 1,4 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma stóð í stað í dag í 5,5 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% í 0,7 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,2% í 4,7 milljarða viðskiptum.