Í atkvæðagreiðslum kjörmanna hvers fylkis sem fram fór í gær þar sem forseti Bandaríkjanna var formlega kosinn var Trump kosinn með 304 atkvæðum á móti 227 atkvæðum Hillary Clinton.

Þrátt fyrir mikla áróðursherferð, þar sem mjög margir kjörmenn Repúblikana hafa orðið fyrir áreiti, jafnvel hótunum um að kjósa ekki Trump sem forseta létu einungis tveir þeirra undan þrýstingnum.

Báðir frá Texas

Þeir tveir af 306 kjörmönnum Repúblikana sem ekki kusu forsetaefni flokksins líkt og þeir voru kosnir til, voru meðal þeirra 38 kjörmanna sem voru frá Texas. Texas er ekki eitt þeirra 29 fylkja sem kjörmenn verða lögum samkvæmt að kjósa í samræmi við kosningaúrslit síns fylkis.

Annar þeirra kaus ríkisstjóra Repúbikana í Ohio, fyrrum keppinaut Trump um útnefningu flokksins, John Kasich og hinn kaus annan Texasbúa, fyrrum þingmanninn og forsetaframbjóðandann Ron Paul.

Mótmæli fyrir utan þinghúsið

Á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð í þinghúsi Texas í Dallas sem og víðar um land mótmæltu hatrammir andstæðingar Trump með ákalli til kjörmanna að bjarga lýðræði landsins og kjósa hann ekki.

Heyrðist jafnvel ákall til einstakra kjörmanna inn í þinghúsið meðan á tveggja klukkutíma fundi kjörmannanna stóð. Fyrir setningu fundar kjörmannanna höfðu fjórir boðað forföll og kusu því hinir 34 fjóra aðra menn inn í þeirra stað.

Ekki er vitað hver kaus Ron Paul, enda er atkvæðagreiðslan leynileg, en Chris Suprun frá Dallas hafði tilkynnt fyrir fram um að hún myndi ekki kjósa Trump heldur Kasich.