Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Stórkaupmaðurinn Eiríkur Sigurðsson, kenndur við verslunina Víði, var í Hæstarétti í dag dæmdur til að greiða 127 milljónir króna í sekt vegna undanskota á skatti. Hæstiréttur staðfesti jafnframt skilorðsbundinn dóm yfir Eiríki sem hann hlaut í héraðsdómi Reykjavíkur í júní í fyrra. Endurskoðandi Eiríks hlaut sömuleiðis skilorðsbundinn dóm í héraðsdómi og var hann staðfestur í Hæstarétti. Sektargreiðsla Eiríks jafngildir tæplega tvöföldu skattaundanskoti hans. Eftir að dómur féll í máli Eiríks í héraði þá stefndi hann ríkinu vegna málsins.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að greiði Eiríkur ekki sektina innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins skuli hann sæta fangelsi í eitt ár.

Embætti sérstaks saksóknara ákærði þá Eirík og endurskoðanda hans vegna gruns um stórfelld undanskot frá skatti og fyrir að hafa skilað efnislega röngu skattframtali. Málið snýst um að Eiríkur var talinn hafa vantalið tekjur sínar um 800 milljónir króna af afleiðusamningum árið 2007 og stungið rúmum 80 milljónum króna undan skatti.

Í héraðsdómi sagði saksóknarfulltrúi að um stórkostlegt hirðuleysi hafi verið að ræða af hálfu beggja manna. Krafist var 14 til 16 mánaða fangelsisrefsingar yfir Eiríki og þrefaldrar sektargreiðslu en að endurskoðandinn yrði sviptur löggildingu sinni. Endurskoðandinn hélt hins vegar réttindunum.