„Ég vil meina að ráðstefnan sé eitt stærsta ef ekki stærsta viðskiptatækifæri Íslendinga í áraraðir, og að sama skapi sendir hún sterk skilaboð um að virkjun jarðvarma geti verið mikilvæg lausn varðandi loftslagsmál,“ segir Viðar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenska jarðvarmaklasans, sem stendur fyrir alþjóðlegu jarðhitaráðstefnunni Iceland Geothermal Conference, sem haldin er í Hörpu dagana 24. til 27. apríl. Er þetta í fjórða skipti sem ráðstefnan er haldin. Viðar segir að umræðan á Íslandi síðust ár gefi ranga mynd af árangri landsins í orkumálum.

Jarðvarmanotkun Íslendinga er einstök því hún sér um 90% af íbúum landsins fyrir heitu vatni til iðnaðar og upphitunar híbýla og um 25% af raforkuþörfinni er fullnægt með virkjun jarðvarma. Jarðvarminn hefur til muna aukið lífsgæði landans.

Fulltrúar fimm þróunarbanka sækja ráðstefnuna.

Ráðstefnan hefur vaxið stöðugt frá því að hún var fyrst haldin árið 2010 og samfara því hafa áherslur hennar breyst. „Við erum að markaðssetja ráðstefnuna sem alþjóðlegan viðskiptaviðburð, með áherslu á framþróun og uppbyggingu í heiminum, ásamt því að marka jarðvarma sess sem hluta af endurnýjanlegum orkugjöfum,“ segir Viðar. „Að mínu mati hefur Íslenska jarðvarmaklasanum tekist mjög vel að koma jarðvarmanum á kortið í því samhengi og við erum að sjá um 500 þátttakendur, þar af eru erlendir aðilar um helmingur ráðstefnugesta. Við fáum til okkar mikils metna aðila eins og Adnan Z. Amin, forseta Alþjóðastofnunarinnar um endurnýjanlega orkugjafa (International Renewable Energy Agency /IRENA) og Shinichi Kitaoka, forseta japönsku þróunarsamvinnustofnunarinnar JICA, sem hefur ekki komið til Íslands áður.

Fulltrúar fimm alþjóðlegra þróunarbanka, þar á meðal Alþjóðabankinn (World Bank), Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu (EBRD), og Þróunarbanki Ameríkuríkja (Inter-American Development Bank) koma til Íslands á ráðstefnuna til að ræða hvernig unnt er að tryggja jarðvarmanum brautargengi á heimsvísu, og ég efast um að það hafi gerst áður nema það hafi ef til vill gerst á fundi G20-ríkjanna að fulltrúar þeirra allra hafi verið í einni málstofu. Við erum með öðrum orðum að fá til landsins gríðarlega hátt setta einstaklinga úr hópi þeirra sem taka ákvarðanir, móta stefnu og framtíðarsýn í atvinnulífi og fjármálastofnunum heimsins.

Við erum einnig að fá á ráðstefnuna fleiri en tólf þróunaraðila sem eru að byggja, reka og þróa virkjanir víðs vegar um heiminn og ég held að það sé fágætt að svo margir úr þeim geira hafi komið saman til skrafs og ráðagerðar til að miðla þekkingu sinni. Með komu þessara tólf aðila fáum við Íslendingar líka betri innsýn í þarfir þeirra og getum komið til móts við þá með ráðgjöf og þróun tækninýjunga.“

Samspil jarðvarma og annarra orkugjafa mikilvægt

Hversu mikilvægt er það að leiða saman á einn stað áhrifafólk vítt og breitt úr heiminum sem tengist jarðvarmamálum? „Það er lykilatriði. Því miður hefur gengið hægt að auka nýtingu jarðvarma í heiminum samanborið við nýtingu sólarorku og vindorku, ekki síst vegna þess að fjárfestingarkostnaður er mjög mikill í fyrstu skrefum jarðvarmanýtingar. Vöxtur jarðvarmanýtingar hefur verið um 2% á sama tíma og hann hefur verið á bilinu 50-100% í nýtingu sólarorku og vindorku. Okkur hefur ekki tekist nægjanlega vel að ná til fjárfesta og setja fram skýra framtíðarsýn, ef til vill vegna þess að lengi vel var einblínt um of á framleiðslu rafmagns með jarðvarma.

Staðan er hins vegar sú að uppbygging orkukerfa, sem byggja á endurnýjanlegum orkugjöfum, málefni sem flestir horfa til í dag, þarf að styðjast við samspil ólíkra orkugjafa. Það virkar ekki að kynna jarðvarma sem hina einu réttu lausn. Þess í stað viljum við leggja áherslu á að jarðvarminn getur leikið mjög mikilvægt hlutverk ásamt og með öðrum orkugjöfum, sérstaklega hvað varðar varmaorkuþörf annars vegar og sem grunnafl í raforkuframleiðslu hins vegar. Evrópa, sérstaklega austurhluti hennar, er að vakna til vitundar um að helming orkuþarfar álfunnar má rekja til húshitunar, Kínverjar eru komnir á góðan skrið í þessum efnum, og mörg önnur lönd í t.d. Suður- Ameríku og Afríku horfa mjög til möguleika í fjölnýtingu, svo sem við þurrkun matvæla. Þar eru sóknarfæri sem við þurfum að grípa.“

Stærri sneið eftirsóknarverð

Viðar bendir á að á ráðstefnuna komi viðskiptafólk í þeirri stöðu að geta aðstoðað Íslendinga við að komast inn í verkefni erlendis.

„Mjög fáir viðburðir af þessari stærðargráðu og þessum skala hafa verið hérlendis fyrir jarðvarmann með skýrri áherslu á viðskiptahlið geirans. Við skulum heldur ekki gleyma að samhliða ráðstefnunni er sýning þar sem 34 fyrirtæki kynna vörur sínar og þjónustu, og innan hennar er sérstakt svæði fyrir nýsköpunarfyrirtæki, sem eru að þróa tæknilausnir sem skapað geta framtíðartekjur fyrir Íslendinga. Íslendingar hafa unnið á fjölmörgum stöðum í heiminum við góðan orðstír en við viljum gjarnan komast hjá að einskorðast við ráðgjafahlutverkið, eins og verið hefur raunin seinustu ár, og fá þess í stað stærri hlut af kökunni þegar kemur að fjárfestingum í jarðvarmanýtingu á alþjóða vettvangi. Það er brýnt fyrir ímynd Íslendinga að vera leiðandi í umræðunni um jarðvarmanýtingu, enda eykst samkeppnin um þá stöðu með hverju árinu sem líður.“

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .