Lífskjör í Danmörku eru með þeim hæstu í heiminum og efnahagurinn virðist vera að vænkast eftir langa efnahagslægð, kaupmáttur eykst og atvinnuleysi lækkar. Stjórnvöld í Danmörku hafa á undanförum árum gripið til aðgerða til að auka við framlegð og hagvöxt í landinu. Hagvöxtur í Danmörku mun samkvæmt spám vera 1% árið 2016 og 2% 2017.

Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD er efnahagsbatinn þó viðkvæmur og ráðast þarf í töluverðar kerfisumbætur í landinu til að hægt sé að viðhalda þeim lífskjörum sem landsmenn eru orðnir vanir. Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar hafi Danmörk dregist aftur úr í samanburði við önnur OECD-ríki, og þá sérstaklega nágrannaríkin, hvað varðar landsframleiðslu á íbúa.

Landsframleiðslan er enn undir því sem hún var fyrir hrun – vergar þjóðartekjur hafi aukist vegna hagstæðrar þróunar í viðskiptum við önnur ríki. Samkvæmt skýrsluhöfundum hefur lítil fjárfesting auk vandamála við olíuframleiðslu í norðurhöfum haldið aftur af hagvexti. Framleiðniaukning hefur einnig verið undir væntingum á sama tíma og þjóðin sé að eldast, en slík þróun grefur undan langtímahagvexti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.