Skiptum er lokið á eignarhaldsfélaginu Universial Exports ehf sem var í eigu Jón Þórissonar fyrrverandi forstjóra VBS Fjárfestinga. Ljóst er að ekkert mun fást upp í lýstar kröfur búsins. Þetta kemur fram í frétt DV .

Universial Exports er meðal annars einn af stærstu eigendum VBS ef marka má ársreikning félagsins frá árinu 2008. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í desember árið 2012 krafði slitastjórn VBS Jón um 120 milljónir vegna kúluláns sem hann fékk frá bankanum til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum í byrjun sumars 2007. Lánið var upphaflega á gjalddaga í maí árið 2009 en þegar harðna tók í ári á fjármálamörkuðum færðu Jón og fleiri stjórnendur VBS gjalddaga lána sem þeir fengu hjá bankanum fram til ársins 2017.

Bankinn kom illa undan bankahruninu haustið 2008 og varð ríkið að koma honum til hjálpar á vordögum 2009. Lýstar kröfur í þrotabú VBS námu 48 milljörðum króna. Þar af voru sértöku- og veðsettar kröfur um 33 milljarðar króna. Almennar kröfur námu 14 milljörðum króna. Óveðsettar eignir í þrotabúinu námu hins vegar um 900 milljónum króna. Félagið fór í þrot í mars 2010.