Gengi verðtryggðra bréfa hækkar þrátt fyrir óvænta lækkun vísitölu neysluverðs en gengi óverðtryggðra bréfa var hins vegar nær óbreytt í síðustu viku að því er kemur fram í skuldabréfayfirliti Capacent. Þá dró töluvert úr lækkun óverðtryggðu ávöxtunarkröfunnar í nóvember eftir mikla lækkun hennar í október. Ávöxtunarkrafa lengstu bréfanna lækkaði um 5 punkta í nóvember á meðan ávöxtunarkrafa skemmri bréfanna lækkaði um 15 punkta.

Þá segir ennfremur að Ísland sé best í heimi og það sé ekkert grín. Þriðja árið í röð stefni allt í metafgang af viðskiptajöfnuði. Það hafi orðið til þess að Íslendingar séu aldrei þessu vant orðnir nettó fjármagnseigendur. „Miðað við árangur Íslendinga í efnahagsmálum upp á síðkastið verður að teljast harla líklegt að við verðum heimsmeistarar í fótbolta,“ segir í yfirlitinu.

Þá gerir Capacent samband efnahagsstærða og gengis krónu að umtalsefni. „Capacent hefur aldrei alveg skilið þá umræðu að spákaupmennska og regluverk hafi meiri áhrif á gengi krónunnar en hagstærðir. Vissulega ráða þessir þættir miklu til skamms tíma og útskýra skammtíma sveiflur. Til lengri tíma er þó ljóst að stöðugt innflæði gjaldeyris vegna afgangs af viðskiptajöfnuði síðastliðin 5 ár er lykilbreyta í styrkingu krónunnar.“

Þannig verði að teljast harla ólíklegt að hún veikist haldi viðskiptajöfnuður áfram að vera jákvæður og erlend staða þjóðarbúsins einnig.