Ekkert lát virðist ætla að verða á fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll, ef marka má tölur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fyrstu fimm mánuði ársins fóru alls 1.154.734 farþegar um völlinn, en þá eru taldar saman komur, brottfarir og skiptifarþegar. Er þetta 22,4% fjölgun frá sama tíma árið 2013.

Það ár fóru alls 3,2 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll og fjölgaði um 16,1% milli ára. Ef eitthvað er er meiri hraði farinn að færast í aukninguna, því á milli áranna 2012 og 2013 nam hún 11,7%.

Þetta sést einnig á því að sífellt fleiri flugfélög fljúga milli Íslands og annarra landa, þótt umferðin sé umtalsvert meiri yfir sumartímann en á öðrum tímum árs. Í fyrra flugu sextán flugfélög til og frá Keflavíkurflugvelli, þótt ekki væru þau öll með reglulegt áætlunarflug. Í sumar eru flugfélögin 21 sem fljúga hingað og þar af eru 18 flugfélög með reglulegt áætlunarflug.

Nánar er fjallað um málið í Flugblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .