Ekkert er sagt til um mögulega vanhæfni seðlabankastjóranna í bréfi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra sem hún sendi bankastjórunum í gær.

Í bréfi Jóhönnu kemur fram að skipulagsbreytingar séu framundan á Seðlabankanum og eru bankastjórarnir beðnir um að segja upp störfum og ganga til viðræðna við ráðuneytið um starfslok.

Bankastjórarnir eru ekki sakaðir um vanhæfni heldur er aðeins rætt um í bréfinu að unnið sé að því að unnið sé að því að endurvekja traust á fjármálakerfinu.

Bréf Jóhönnu til bankastjórana svohljóðandi:

Ljóst er að traust manna á fjármalakerfi Íslendinga hefur beðið gífurlegan hnekki. Á það jafnt við um fjármálafyrirtækin sem starfað hafa á markaðnum og opinbera aðila, ráðuneyti og stofnanir sem hlutverk hafa haft við stjórnun og eftirlit með fjármálakerfinu og er Seðlabanki Íslands þar ekki undanskilinn.

Umtalsverðir þjóðhagslegir hagsmunir eru fólgnir í að það takist að endurvekja traust a fjármalakerfinu og ber ríkisstjórninni skylda til að skoða allar mögulegar leiðir i því sambandi.

Hvað Seðlabanka Íslands varðar er það mat ríkisstjórnarinnar að til að endurreisa traust á bankanum sé nauðsynlegt að gera tilteknar breytingar á stjórnskipulagi Seðlabankans. Mun ríkisstjórnin a næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands i þessu skyni.

Markmið þeirra breytinga sem lagðar verða til eru að endurvekja traust með því að tryggja að i bankanum sé starfandi faglega yfirstjórn. Þannig verði dregið úr efasemdum um að faglega sé staðið að ákvörðunum Seðlabankans.

Meginbreytingin samkvæmt frumvarpinu felur í sér að bankastjórn Seðlabanka Íslands er lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga i stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar, en i stað bankastjórnarinnar verði skipaður einn faglegur seðlabankastjóri, að undangenginni auglýsingu, sem stýrir bankanum.

Ákvarðanir i peningamálum eru fyrst og fremst faglegt viðfangsefni sem krefst sérfræðiþekkingar i þjóðhags- og peningahagfræði. Þetta sjónarmið er viðurkennt i seðlabönkum um allan heim og kemur gleggst fram í því að í flestum löndum eru menntaðir hagfræðingar i embættum seðlabankastjóra.

Þau pólitísku sjónarmið sem oft virðast hafa vegið þungt við skipun bankastjóra i bankastjórn Seðlabanka Íslands sameinast ekki þeim faglegu sjónarmiðum sem hér um ræðir og eru til þess fallin að rýra traust a bankanum. Með þeim hæfniskröfum sem gerðar eru til seðlabankastjóra í frumvarpinu og þeirri lagaskyldu að auglýsa beri stöðu seðlabankastjóra er leitast við útiloka að slík sjónarmið geti í framtíðinni orðið ráðandi við skipun í embætti seðlabankastjóra.

Verði framangreint frumvarp ríkisstjórnarinnar að lögum mun embættið sem þér gegnið verða lagt niður. Fer þá um starfslok yðar hjá Seðlabankanum i samræmi við 34. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Með hliðsjón af því og þeim markmiðum sem liggja að baki frumvarpinu og lýst hefur verið vill ríkisstjórnin kanna hvort vilji sé til þess af yðar hálfu að biðjast lausnar frá embætti nú þegar og leggjast þannig á sveif með stjórnvöldum í viðleitni þeirra til að endurvekja trúverðugleika og traust á Seðlabanka Íslands enda megi ætla að mannabreytingar einar og sér geti verið til þess fallnar.

Verði það niðurstaða yðar að biðjast lausnar frá embætti er yður jafnframt boðið að ganga til viðræðna við stjórnvöld um starfslokagreiðslur er taki mið af þeim réttindum sem þér eigið samkvæmt 34. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Forsætisráðherra mun þá setja sérfræðinga tímabundið í embætti bankastjóra Seðlabanka Íslands þar til nýr seðlabankastjóri hefur verið skipaður á grundvelli auglýsingar i samræmi við þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á lögum um Seðlabanka Íslands.

Þess er óskað að svar yðar berist forsætisráðuneytinu sem fyrst, eigi síðar en 5. febrúar nk. Eftir sem áður má vænta þess að fljótlega og jafnvel fyrir þann tíma verði fram komið og afgreitt frá ríkisstjórn frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka í samræmi við ofangreint.