Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag hvílir trúnaðarskylda á starfsmönnum Wow air. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air staðfesti það í dag að starfsfólki og áhöfnum Wow air væri ekki heimilt að tjá sig um einstök atvik eða farþega sem ferðast með Wow air. Hafa þau nú gefið út fréttatilkynningu vegna málsins.

„Eftir að hafa rætt ítarlega við áhöfnina í flugi Wow air til Washington, D.C. þann 10. maí, er ekkert sem bendir til þess að trúnaðarbrestur hafi átt sér stað og er það niðurstaða okkar að ekki sé fótur fyrir fréttaflutningi þess efnis að flugliði hafi tjáð sig opinberlega um mál farþega. Rík áhersla er lögð á trúnað gagnvart farþegum Wow air og skýrt ákvæði þess eðlis í öllum ráðningasamningum starfsmanna félagsins,“ segir í tilkynningu Wow air.