Jóhannes Þór Skúlason, nýr framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir þvert á framkvæmdastjóra auglýsingastofunnar Brandenburg mörg sterk vörumerki vera innan ferðaþjónustunnar.

Hann segir nauðsynlegt að ríkisvaldið hætti að líta á ferðaþjónustuna sem ótæmandi gullkistu sem hægt sé að klípa stöðugt meira af með viðbótargjöldum. Jafnframt segir hann að á sama tíma sé undarlegt hve umræðan um greinina sé neikvæð og skrýtin með tali um frjálst fall þegar ferðamenn hafi aldrei verið ánægðari.

Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburg, sagði í nýlegu viðtali að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hefðu treyst of mikið á bókunarsíður og ekki byggt upp nægilega sterk vörumerki. Jóhannes Þór svarar því til að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sem og önnur hafi notið góðs af vörumerkinu Ísland sem sé það fyrsta sem ferðamenn leiti að og mikið verið unnið með.

„Við erum með um 4.000 ferðaþjónustufyrirtæki og mörg af þeim eru mjög lítil. Eins og okkur finnst skemmtilegur frasi að segja er ferðaþjónustan einkaframtakið í sinni fegurstu mynd og algert gósenland í frumkvöðlastarfsemi, því það er raunverulega þannig,“ segir Jóhannes Þór.

„En það þýðir oft að erfitt er fyrir mörg þeirra minni sérstaklega að standa undir allri markaðssetningu innanhúss og því hafa margir treyst á þessar bókunarsíður. En það er vissulega líka erfitt fyrir reksturinn því að þjónustugjöldin eru gríðarlega há, allt upp í 35%, sem allir sjá að er ekki auðvelt að standa undir til lengdar.“

Jóhannes Þór sem segir að vissulega séu sterk vörumerki innan ferðaþjónustunnar á Íslandi þó ýmislegt megi bæta í því. „Það er hins vegar kannski munur á því hvernig þeim er komið á framfæri. Ég get ekki tekið undir með Ragnari að menn hafi heilt yfir misst af einhverri lest þó það sé klárt mál að það eru heilmikil tækifæri í því að byggja upp fleiri sterk vörumerki,“ segir Jóhannes Þór.

„En til þess þarf rekstrarumhverfi fyrirtækjanna að styrkjast til að fleiri hafi bolmagn til að fá meiri þekkingu inn í fyrirtækin og greinina á því hvernig það er best gert og ekki síður hvernig nýta má þá tækni sem er nú til staðar til þess. En til að svara Ragnari þá verður heldur ekki allt gert með því að fara inn á auglýsingastofur.“