Landsbankinn stóð fyrir morgunfundi á Icelandair Hotels Reykjavík Natura í gær um eðli, innleiðingu og aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga hér á landi og erlendis. Fundarstjóri var Hrönn Hrafnsdóttir, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Reykjavíkurborg.

Þrír framsögumenn vörpuðu ljósi á ábyrgar fjárfestingar út frá mismunandi sjónarmiðum. Bentu flestir þeirra á, að samfélagsábyrgð og upplýsingagjöf í þeim efnum leiði til betri árangurs fyrirtækja og fjárfesta, og að rannsóknir styðji þá niðurstöðu.

Samfélagsábyrgð í greiningu og verðmati fyrirtækja

Í opnunarávarpi Hrefnu Aspar Sigfinnsdóttur, framkvæmdastjóra Markaða Landsbankans, var skautað yfir mikilvægi ábyrgra fjárfestinga. Hrefna fjallaði um hugtakið ábyrgar fjárfestingar en það felur meðal annars í sér að við mat á fjárfestingarkostum væri fjallað um fjárhagslegan ávinning en jafnframt tekið tillit til stefnu viðkomandi fyrirtækis í umhverfismálum, jafnréttismálum, stjórnarháttum og fleiri félagslegum þáttum.

Einnig fjallaði hún um stefnu Landsbankans í ábyrgum fjárfestingum, sem kynnt var árið 2013, en bankinn var fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að gerast undirskriftaraðili PRI (Principles for Responsible Investment) staðla Sameinuðu þjóðanna.

Hrefna Ösp tíundaði hvernig Ísland væri eftirbátur annarra Evrópuþjóða í innleiðingu viðurkenndra staðla um ábyrgar fjárfestingar, en að aukinn áhugi innlendra fjárfesta og áhrifavalda á innlendum markaði á málefninu undan farin ár gefi tilefni til bjartsýni.

Hrefna sagði einnig frá því að hagfræðideild Landsbankans muni framvegis taka tillit til þess hvernig staðið sé að samfélagsábyrgð við greiningar og verðmat fyrirtækja.

Fleiri þættir skipta máli en hagnaður

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, flutti erindi um samfélagslega ábyrgan markað. Sagði Páll að fyrirtæki, birgjar og fjárfestar, bæði á Íslandi og erlendis, væru í auknum mæli að taka mið af málaflokkum á borð við umverfismál, samfélagsleg málefni og stjórnarábyrgð í starfsemi sinni að eigin frumkvæði. Hagnaður væri ekki einn og sér viðeigandi mælikvarði á efnahagslegan árangur eða gæði.

Benti Páll á að tveir bankar og þrír lífeyrissjóðir hafi þegar undirritað yfirlýsingu SÞ um ábyrgar fjárfestingar, tíu skráð fyrirtæki væru virkir þátttakendur í Festu og að yfir 100 fyrirtæki hafi undirritað alþjóðlega loftslagsyfirlýsingu á síðasta ári.

Samhliða þessari þróun hafi upplýsingagjöf um stefnu fyrirtækja í þessum málum og samræmdir mælikvarðar færst í aukana fyrir fjárfesta. Erlendar kauphallir og aðrir aðilar sem tengjast verðbréfamörkuðum hafi komið að þessu með grænum vísitölum, sjálfbærnivísitölum, alþjóðlegu samstarfi og mælistikum.

Að mati Páls verða hliðaráhrifin gagnsærri og skilvirkari verðbréfamarkaðir, auk þess sem frammistaða fyrirtækja í fyrrgreindum málaflokkum mun skipta sífellt meira máli fyrir fjármagnsöflun, stofnun viðskiptasambanda og samkeppnishæfni.

Samfélagsábyrgð Icelandair

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar Icelandair Group, s agði fyrirtækið leggja mikla áheslu á að starfa í sátt við samfélagið og styðjast við langtímasjónarmið í fjárfestingum. Kjarninn í framtíðarsýn félagsins væri að byggja Ísland upp sem heilsársáfangastað og að allar langtímaákvarðanir miðuðust við það.

Icelandair var fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að fá viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti. Greindi Halldór frá því að Icelandair væri að ljúka alþjóðlegri umhverfisvottun á allri starfsemi sinni, og að fyrirtækið væri í samvinnu við Landsbréf og í samstarfi við háskólastofnanir á Íslandi í málefnum sem snúa að samfélagslegri ábyrgð. Lagði Halldór áherslu á það að það væri ógjörningur að slíta samfélagsábyrgð frá stefnu fyrirtækja, og að Icelandair taki allar rekstrarákvarðanir á þeim grunni með langtímahagsmuni í huga.

Why not?

Að lokum flutti Gil Friend, stofnandi og stjórnarformaður Natural Logic Inc, erindi um áhættu, skyldur til fjárvörslu og náttúrulögmál. Bandaríkjamaðurinn er einn af fremstu sérfræðingum heims í innleiðingu samfélagsábyrgðar í rekstri fyrirtækja og sjálfbærnistjóri Palo Alto borgar í Kaliforníu.

Gil fjallaði um margþættan ávinning þess fyrir fyrirtæki að setja sér skýra stefnu samfélagsábyrgð og sjálfbæran rekstur. Ávinningurinn gæti falist í lækkun rekstrarkostnaðar, aukinni nýsköpun og bættri ímynd fyrirtækja. Nauðsynlegt væri fyrir fyrirtæki - sérstaklega stórfyrirtæki - og starfsfólk að taka þátt í greiningu á rekstraráhættu, stefnumótun og kynningu á markmiðum og árangri. Það gæti haft jákvæð og keðjuverkandi áhrif á önnur fyrirtæki. Nefndi hann metnaðarfulla stefnu Walmart og reynslu IKEA sem dæmi.