Í tilefni af kvennadeginum hefur Viðskiptablaðið tekið saman góð ráð kvenna sem birtast í bókinni Tækifærin eftir Hjördísi Hugrúnu Sigurðardóttur og Ólöfu Rún Skúladóttur þar sem rætt er við 50 íslenskar konur í forvitnilegum störfum á Íslandi og erlendis. Allar eiga konurnar það sameiginlegt að hafa lokið námi á sviði tækni og raunvísinda og hafa gert það gott í atvinnulífinu.

Erla Dögg Haraldsdóttir vinnur í deild sem sér um viðhaldseftirlit flugvéla Icelandair. Verkfræðideildin fylgist með því að viðhald sé samkvæmt áætlun auk þess sem hún aðstoðar m.a. flugvirkja við vinnuleiðbeiningar. En Erla Dögg var bæði dúx og keppti í sundi á Ólympíuleikunum fyrir hönd Íslands.

Erla hefur bæði þurft að takast á við sigra og sorgir í sundinu og hefur lært margt af því. „Ekki berja sjálfan þig niður. Auðvitað er maður fúll og leiður í einhvern tíma þegar markmiðin nást ekki. Yfirleitt er þetta nokkuð sem ekki er unnt að breyta. Ekki staldra lengi við neikvæðar hugsanir. Mikilvægt er að sættast við sjálfan sig, halda áfram og vera jákvæður.“

Nánar má lesa um forvitnileg störf og nám viðmælendanna fimmtíu í bókinni Tækifærin.