Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku.

Þeir sem starfa í ferðaþjónustu rísa jafnan upp á afturlappirnar þegar auknar álögur á greinina eru til umræðu, eins á raunar við um flestar eða allar atvinnugreinar. Skarphéðinn segir umræðu um álögur á ferðaþjónustu alltaf verða í gangi. „Það er bara eðlilegt. Við verðum að líta á gjaldtöku með opnum huga. Þessi atvinnugrein þarf að taka þátt í samneyslunni í landinu en hún leggur ferðaþjónustunni ýmislegt til en það verður að skoða með sanngjörnum hætti að ferðamenn greiða hér talsvert mikla skatta nú þegar, án þess að nota stóran hluta þeirrar þjónustu sem ríkið leggur til. Þá verður líka að horfa á þetta í stærra samhengi. Ferðamönnum fjölgar í heiminum og ferðaþjónusta er að aukast og mun aukast áfram. Á einhverjum tímapunkti verðum við að huga að því að hamla fjölgun. Þá er kannski ekkert tæki skilvirkara en verðlagning til að ákveða hverjir koma til landsins og hverjir ekki – nema fólk vilji vera með eitthvert lottó,“ segir Skarphéðinn og hlær.

„Það er gríðarlegt framboð á flugsætum til Íslands og verður mun meira en ferðaþjónustan mun nokkurn tíma nota. Þetta leiðir bara af staðsetningu landsins, en þar er gríðarlegt tækifæri til að halda áfram að byggja upp. Á einhverjum tímapunkti verðum við samt að spyrja okkur hver sé hámarksfjöldi ferðamanna til landsins. Ég veit það ekki en hann er til staðar,“ segir Skarphéðinn og veltir vöngum yfir hvort komugjald væri hugsað í þessum tilgangi og þá hve hátt það þyrfti að vera.

„Alþjóðlega er talað um að fjöldi ferðamanna í heiminum muni aukast um sjö prósent á ári næstu árum. Ef við verðum bara með þá aukningu verðum við komin í þrjár milljónir ferðamanna eftir fimm ár. Það er ekki langt í þetta. Svo er stór hluti sem kemur með skemmtiferðaskipum og bætist þar við. En það eru einhvers staðar mörk á fjölda sem við ráðum við og skattlagning er möguleg leið til að draga úr eftirspurninni. Hún verður ekki til þess að lækka verðið og kostnað ferðamanna við það að koma til landsins. En það er kannski það sem þarf á einhverjum tímapunkti að gera.“

Í þetta skipti verður þetta öðruvísi

Menn sem muna tímana tvenna hafa á orði að Íslendingar horfi á magn frekar en gæði. Um miðja síðustu öld þuldu menn aflatölur síldveiða, fyrir áratug leið vart sá kvöldfréttatími sem ekki var sagt til um hvernig Úrvalsvísitalan hefði það þá stundina og nú teljum við ferðamenn inn í landið. Tvennt af þessu þrennu endaði með ósköpum en Skarphéðinn telur að ef vel er haldið á spöðunum geti ferðaþjónusta á Íslandi orðið uppistöðuatvinnugrein til framtíðar.

„En við þurfum sjálf að hafa áhrif á það. Náttúran má ekki verða fyrir óbætanlegu tjóni en félagslegu þolmörkin þarf líka að passa. Það er ekki langt síðan það voru viðtöl við fólk á Ísafirði sem upplifði sig eins og gullfiska í búri þegar kannski 6.000 farþegar á skemmtiferðaskipum komu á sama tíma í bæinn. Í svoleiðis tilfellum erum við komin yfir þolmörkin.“ Sömu sögu sé að segja þegar skemmtiferðaskip hafa viðkomu á Hornstöndum.

„Við megum ekki láta þetta vera stjórnlaust því það fer bara illa.“ Heldurðu að við höfum ekki haft nógu miklar skoðanir á þessu hingað til? „Við höfum ekki þurft þess en núna þurfum við þess. Ferðaþjónustan hefur dálítið verið í hlutverki bjargvættar íslensks efnahagslífs, sem er mjög gott. Þetta er atvinnugrein sem er komin til að vera en hún getur ekki haldið áfram að vaxa svona. Það sér hver maður og við þurfum, bæði stjórnvöld og atvinnugreinin, að finna út úr því hvernig þetta á að vera,“ segir Skarphéðinn.

„Í sjávarútvegi veiddu menn á sínum tíma endalaust og aflinn jókst sem endaði með því að það var veitt of mikið og þurfti að draga saman. Menn höfðu kjark til að fara í það og það þvingaði fyrirtækin til þess að hugsa þetta öðruvísi og nýta betur það sem kom upp úr sjónum. Samhliða þróaðist hátækniiðnaður sem studdi við sjávarútveginn og hafði síðan sóknarfæri inn á önnur svið matvælaiðnaðar. Það er ekkert því til fyrirstöðu að sambærileg þróun verði í ferðaþjónustu,“ segir Skarphéðinn. „Það þarf ekki að vera slæmt fyrir framtíðarhorfur atvinnuvegar að það verði til einhverjar girðingar. Þær geta líka búið til ný tækifæri.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .