*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Innlent 27. nóvember 2017 10:36

Ekki færri ættleiðingar síðan 1995

Einungis þrjár frumættleiðingar gerðar innanlands 2016, en Tékkland hefur tekið fram úr Kína sem algengasta upprunalandið.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á síðasta ári voru 32 einstaklingar ættleiddir á Íslandi og hafa ættleiðingar ekki verið jafn fáar á einu ári frá 1995. Árið 2016 voru stjúpættleiðingar 17 en frumættleiðingar 15, að því er Hagstofan greinir frá. Árið 2015 voru alls 47 ættleiðingar á Íslandi.

Flest börn frá Tékklandi

Frumættleiðingar frá útlöndum voru 12 árið 2016 sem er fækkun frá fyrra ári, þegar þær voru 17. Frumættleiðingar frá útlöndum hafa verið á milli 10 og 18 síðustu fimm ár. 

Undanfarin ár hafa flest ættleidd börn verið frá Kína en árið 2016 voru flestar ættleiðingar frá Tékklandi, alls níu. Með hugtakinu frumættleiðing er átt við ættleiðingu á barni sem ekki er barn maka umsækjanda.

Óvenjufáar stjúpættleiðingar innanlands

Frumættleiðingar innanlands voru þrjár árið 2016, en hins vegar voru stjúpættleiðingar á árinu óvenju fáar eða 17. Það er mikil fækkun frá árinu 2015 þegar þær voru 28. 

Í öllum tilvikum var stjúpfaðir kjörforeldri, en það hefur jafnan verið algengast, en með hugtakinu stjúpættleiðing er átt við ættleiðingu á barni (eða kjörbarni) maka umsækjanda.

Stikkorð: Kína Hagstofan Tékkland Kína ættleiðingar