Þrátt fyrir að útboðsferli sé hafið og stefnt sé að opnun tilboða í Dýrafjarðargöng í janúar næstkomandi er ekki gert ráð fyrir göngunum á komandi fjárlögum.

„Einungis er mánuður liðinn frá því að Vegagerðin tilkynnti bjóðendum að tilboð í göngin yrðu opnuð í byrjun janúar nk. að því tilskyldu að þá yrði búið að samþykkja fjárlög,“ segir í tilkynningu SAVS, Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum Að því er segir í frétt bb.is .

„Það kemur því á óvart að í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga skuli ekki hafa verið gert ráð fyrir þeim fjármunum sem nauðsynlegir eru til að unnt sé að halda fyrirhugaðri áætlun.“

Pólítísk samstaða í samræmi við samgönguáætlun

„Það hlustar auðvitað ekki nokkur heilvita maður á svona rugl tillögu, það er fullkomin pólitísk samstaða allra flokka að fara í Dýrafjarðargöng í samræmi við samþykkta samgönguáætlun.

Tveir samgönguráðherrar á síðasta kjörtímabili lögðu fram tillögu um að hefjast handa á næsta ári og það var samþykkt samhljóða á Alþingi. Dýrafjarðargöng eru komin í útboð og þeir sem að bjóða eru að undirbúa tilboð„ segir Einar Guðfinnsson í viðtali við bb.is , en hann lét nýlega af störfum sem forseti Alþingis og þingmaður.

„Ég er auðvitað hættur á þingi og skil ekki hvernig svona vitleysa ratar í fjárlagafrumvarp, en ég þekki það frá fornu fari að þinginu verður ekki skotaskuld úr því að leysa úr þessu máli. Það er jú hlutverk Alþingis að setja landinu fjárlög og það eru fjölmörg dæmi um að svona mál og jafnvel önnur viðurhlutameiri sé breytt í meðförum Alþingis.“

Nauðsynleg tenging norðan og sunnanverðra Vestfjarða

Samtökin segja göngin nauðsynlega forsendu áframhaldandi atvinnuuppbyggingar á sunnanverðum Vestfjörðum.

„Að mati stjórnar SASV nær það engri átt að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð frestun framkvæmda á sama tíma og verktakafyrirtæki undirbúa gerð tilboða með þeirri gríðarlegu vinnu og kostnaði sem tilboðsgerð af þessu tagi krefst,“ segir í yfirlýsingunni.

„Að sama skapi hafa atvinnurekendur og íbúar allir á Vestfjörðum gert ráð fyrir því að staðið yrði við gefin og langþráð fyrirheit enda munu göngin skapa nauðsynleg sóknarfæri í atvinnulífi fjórðungsins með tengingu atvinnu- og þjónustusvæða norðan og sunnan ganga.“