Ekki verður framhald á flugferðum Wow air beint til frönsku Riveríunnar líkt og félagið bauð upp á síðasta sumar. Þetta staðfestir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins í samtali við Túrista .

Síðastliðið sumar flaug félagið beint til borgarinnar Nice í Frakklandi alla fimmtudaga og sunnudaga, en margir Íslendingar nýttu sér flugið þangað í tengslum við EM í Frakklandi.

Fyrir utan þetta flug til Nice hafa samgöngur milli Íslands og Frakklands hingað til takmarkast við flug til Parísar auk sumarflugs Wow til Lyon og svo virðist vera að verði á ný.

„Flugið til Nice var því vafalítið kærkomið því það auðveldaði aðgengið að Rivíerunni, Provence héraði og þaðan eru líka tíðar ferjusiglingar til Korsíku,“ segir í frétt Túrista.

„En þrátt fyrir að ekkert verði úr fluginu til Nice í sumar þá hafa Íslendingar á leið til Frakklands í sumar úr töluverðu að moða því auk flugsins til Parísar og Lyon þá geta áætlunarferðir easyJet og Icelandair til Genfar komið að góðum notum því svissneska úraborgin er skammt frá landamærunum og sömu sögu er að segja um Baselflug easyJet.

Svo er ekki ýkja langt frá Barcelona að landamærum Spánar og Frakklands og áætlunarflugið til Brussel gæti hentað þeim sem ætla að heimsækja nyrstu hluta Frakklands.

En Icelandair flýgur beint til belgísku höfuðborgarinnar og þangað mun WOW air fara jómfrúarferð sína í sumarbyrjun.“