Engin flugleiðsöguþjónusta var í flugturningum á Reykjavíkurflugvelli í nótt þrátt fyrir að lög hefðu verið sett á yfirvinnubann flugumferðarstjóra.

Var ekkert flug milli klukkan 21 í gærkveldi til klukkan 7 í morgun. Forföll voru boðuð á næturvakt í flugturninum og ekki tókst að fá afleysingu, svo ekkert flug var um flugvöllinn á þessum tíma. Var notendum flugvallarins bent á að nota Keflavíkurflugvöll í tilkynningu frá Isavia.

Lög voru sett á yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðarstjóra á Alþingi á miðvikudag, Tekið er fram í lögunum að ef ekki nást samningar fyrir 24. júní skuli gerðardómur úrskurða um launakjör en jafnframt kveðið skýrt á um að ákvarðanir gerðardóms skuli fyrst og fremst taka mið af launaþróun samkvæmt þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði.

Ítreka rétt til að hafna yfirvinnu

Í ályktun Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir félagið að félagsmenn muni sem fyrr sinna öllum lögboðnum skyldum en ítrekað að þrátt fyrir lagasetninguna sé hverjum og einum flugumferðarstjóra í sjálfsvald sett hvort hann vinni yfirvinnu. Jafnframt segir í ályktuninni:

“Það vekur mikla furðu að í þeim lögum sem nú hafa verið sett á aðgerðir flugumferðarstjóra skuli þeim gerðardómi sem ráðherra mun skipa settar fyrirfram ákveðnar skorður við niðurstöðu sína... Um leið er honum fyrirskipað að horfa framhjá þeirri grundvallarkröfu flugumferðarstjóra að tekið sé tillit til þess hve mjög þeir hafa dregist aftur úr öðrum hópum launafólks á því fimm ára tímabili sem samið var til árið 2011.“