Skipulagsbreytingar á íbúðalánasjóði sem kynntar voru starfsfólki í morgun eiga að tryggja að hann muni skila jákvæðum rekstrarafgangi. Jafnframt er ekki lengur gert ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja sjóðnum til aukið fé samkvæmt langtímaáætlunum sjóðsins.

Rekstrarkostnaður hans mun lækka um 320 milljónir þegar aðgerðirnar verða komnar til framkvæmda á árinu 2017 en hann er áætlaður að verði þá 1550 milljónir. Á sama tíma munu viðskiptavinir sjóðsins upplifa betri þjónustu með einfölduðu skipulagi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

Fækkun starfsfólks

Framkvæmdastjórum sjóðsins mun fækka um einn um mánaðarmótin sem og 6 starfsmönnum verður sagt upp í tengslum við skipulagsbreytingarnar, en einnig verður ekki ráðið í stöður sem losna sem og tímabundnir samningar verða ekki endurnýjaðir.

Breytingarnar eru sagðar rökrétt framhald af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til að undanförnu til að bæta afkomu sjóðsins eins og eignasala þar með á Leigufélaginu Kletti, rekstrarkostnaðarlækkun og bættri ávöxtun uppgreiðslufjármuna með fjárfestingum í verðtryggðum eignum.

Lánasafn styrkist á sama tíma og útlánahlutfall minnkar

Lánasafn sjóðsins hefur styrkst mikið að undanförnu samfara hækkun fasteignaverðs og úrvinnslu skuldamála en einungis 10% af nýjum húsnæðislánum sem veitt voru til heimila á árunum 2013 - 2015 koma frá sjóðnum.

Hlutdeild hans er hins vegar mun hærri á landsbyggðinni og í lánum til þeirra sem fá síður fyrirgreiðslu en annars staðar.