Síðastliðinn sunnudag var samþykkt á Alþingi frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Krónur þessar hafa undanfarin ár gengið undir nafninu aflandskrónur og er umtalsverður hluti þeirra í eigu erlendra vogunar- og fjárfestingarsjóða.

Samkvæmt nýju lögunum munu þær aflandskrónur sem ekki verða seldar fyrir gjaldeyri með umtalsverðum afföllum á næsta gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands enda á geymslureikningum sem bera einungis 0,5% vexti. Aflandskrónueigendur hafa margir hverjir verið tregir við að taka þátt í útboðum Seðlabankans og freistað þess að geta skipt krónunum fyrir gjaldeyri á hagstæðari kjörum síðar meir. Afleiðingin er sú að tæpir 320 milljarðar króna, sem skilgreindir eru sem aflandskrónur, bíða þess að streyma úr landi með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð Íslands.

„Við höfum haldið á þriðja tug útboða á undanförnum árum og með því náð að draga úr umfangi aflandskrónuvandans um 160 milljarða. Það hefur skilað árangri og að því leytinu til er útboðið sem við höldum að þessu sinni eðlilegt framhald. Það sem öllu skiptir er að það ræðst ekki af útkomunni í útboðinu hvort við getum stigið frekari skref til afléttingar hafta, heldur svarar frumvarpið og þessi lög spurningunni hvað verður um aflandskrónur sem ekki taka þátt í útboðinu. Það sem skiptir mestu máli er að þetta mál býr í haginn með skýrum hætti fyrir afléttingu hafta fyrir íslenskan almenning, en það er ljóst að við gátum ekki tekið áhættuna af útflæði yfir 300 milljarða króna,“ segir Bjarni.

Þegar krafist var kosninga fyrir stuttu hélt stjórnarandstaðan því fram að hægt væri að leiða þetta mál til lykta þó ný ríkisstjórn tæki við völdum. Hvernig svararðu þeim fullyrðingum?

„Það kom í ljós þegar frumvarpið var tekið fyrir á þinginu að það var ekki mikil innistæða fyrir því að það yrði einhugur um þessi skref. Það birtist í því hvernig málinu var tekið af sumum stjórnarandstæðingum, þegar á reyndi litu menn ekki á þetta sem fullkomið formsatriði sem embættismenn myndu sjá um. Ég get ekki sagt að þetta komi mér fullkomlega á óvart, auðvitað er þetta stórt mál sem erfitt er að setja sig inn í á skömmum tíma. Það sem skiptir máli er að menn voru ekki að leggjast gegn þessu, það var ágætis samvinna um nefndarvinnuna og þingstörfin þar til málinu var lokið og ég vil ekki gera lítið úr því. Það var afgerandi meirihluti fyrir málinu og góður stuðningur frá mörgum stjórnarandstæðingum.“

Það má segja að atburðarrásin frá föstudegi til mánudags hafi verið ansi hröð?

„Það var nauðsynlegt að ljúka málinu á milli þess sem markaðir væru opnir og þingið hefur í gegnum tíðina getað sýnt sveigjanleika þegar mikið er undir, eins og gerðist t.d. í neyðarlögunum og við upptöku fjármagnshafta. Það sýnir styrk þingsins að geta tekið stór og flókin mál og leitt þau til lykta á skömmum tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .