Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum hefur ríkt nokkur ólga á póstmarkaði og samkeppnisaðilar Íslandspósts sakað fyrirtækið um að nýta hagnað úr einkaréttarvarinni þjónustu til að víxlniðurgreiða samkeppnisstarfsemi. Fyrirtækið  hyggst svo hækka gjaldskrá sína í einkaréttarþjónustu, þrátt fyrir að hafa í byrjun árs fækkað dreifingardögum um helming. Íslandspóstur greip til þessara aðgerða til að bregðast við rekstrarvanda.

Rekstrarvandi félagsins endurspeglast í þeirri staðreynd að á dögunum greindi fjármála- og efnahagsráðuneytið frá því að ríkissjóður myndi lána Íslandspósti 500 milljónir króna til að styrkja lausafjárstöðu félagsins, með fyrirvara um heimild í fjáraukalögum. Því  þarf fjárlaganefnd og þingið að heimila þetta lán.

Í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þar sem greint var frá þessum áformum, kemur fram að Íslandspóstur sé með rekstrarleyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun sem kveður á um að það skuli gegna skyldum ríkisins samkvæmt lögum um póstþjónustu. Í því felst meðal annars að félagið fer með einkarétt ríkisins til að sinna póstþjónustu, þ.e. póstsendingar bréfa allt að 50 g., og sinnir alþjónustu fyrir hönd ríkisins til að tryggja öllum landsmönnum aðgang að póstþjónustu með skilgreindum gæðum og á viðráðanlegu verði.

Nær alþjónustuskyldan til sendinga allt að 20 kg. Með lánveitingunni tryggi ríkið tímabundið möguleika félagsins til að standa undir þessum skyldum. Bent er á að undanfarinn áratug hafi bréfasendingum farið fækkandi og á sama tíma pakkasendingum fjölgað. Tekjur af bréfasendingum vegna alþjónustu hafi því dregist saman á sama tíma og dreifikerfið hafi stækkað, en auknar tekjur af pakkasendingum hafi ekki dugað til að vega upp á móti samdrætti í bréfasendingum.

Fjárlaganefnd mun skoða rekstur og fjárhag Íslandspósts

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir að fjárlaganefnd muni taka þetta mál til efnislegrar umfjöllunar þegar málið kemur til kasta þingsins. „Ég trúi því að við þurfum að leita eftir umsögnum og umfjöllun um þessa tilteknu lánveitingu og kannski í einhverju víðara samhengi en oft er. Það kemur meðal annars til vegna umfjöllunar Viðskiptablaðsins, Félags atvinnurekenda og fleiri um fjárhagsleg málefni fyrirtækisins og þessa samsetningu á alþjónustunni, einkaréttinum og samkeppnisrekstrinum. Við þurfum að draga fram þetta samhengi.“

Spurður um hvort rekstur og fjárhagsupplýsingar Íslandspósts verði skoðuð innan fjárlaganefndar þegar nefndin tekur lánveitinguna fyrir, segir Willum að sér finnist það vera ábyrgð þingsins og fjárlaganefndar í þessu verkefni sem fjárlaganefnd er ætlað.

„Þegar verið er að lána svona háa fjárhæð til tiltekins aðila þá má velta fyrir sér hver er fjárhagsleg staða fyrirtækisins. Hvernig ætla þeir að mæta þessari lánveitingu? Hvernig fær ríkissjóður sitt til baka og svo framvegis. Þetta á við um lánveitingar öllu jafna og við munum auðvitað taka þetta mál mjög vel fyrir í fjárlaganefnd þegar að því kemur. Spurningar sem blasa við eru til dæmis: hvaða fjárfestingar hafa átt sér stað hjá Íslandspósti sem snúa að samkeppnisrekstrinum og er hægt að losa um einhverjar eignir til þess að mæta fjárþörfinni? Við í fjárlaganefnd eigum að ræða þessa hluti, okkur ber skylda til þess og það má ekki taka neinu sem gefnum hlut þegar um svona mikla fjármuni er að ræða.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .