Um tíma í gær kom bilun í kerfum Reiknistofu bankanna í veg fyrir að hægt væri að nota debetkort í verslunum, hraðbönkum eða afgreiðslukerfum. Olli bilunin að á álagstoppum, annars vegar upp úr 13:00 og hins vegar upp úr 17:00 var ekki hægt að nota kortin.

Þetta varði í rúmar 20 mínútur í fyrra skiptið og rúmar 50 mínútur í seinna skiptið og orsakaði eðlilega mjög mikla röskun hjá verslunar- og þjónustufyrirtækjum segir í fréttatilkynningu frá Reiknistofunni.

Neyðarstjórn kölluð út

Segir þar að bilunin hafi komið til vegna óvanalegs álags og skýrist af mörgum samverkandi þáttum. Að öllu jöfnu ráða kerfi RB við aukið álag í tengslum við mánaðarmót en við það bættist bilun í búnaði  sem takmarkaði afkastagetu og hafði keðjuverkandi áhrif á kerfið.

Þetta hafi síðan ollið truflunum í heimildargjöf debetkorta, afgreiðslukerfi bankanna og í hraðbönkum. Neyðarstjórn RB var kölluð út strax við fyrra atvikið segir stofnunin.

Stjórnin og stór hópur starfsmanna RB og samstarfsaðila vann að úrlausn fram á kvöld. Klukkan 18:00 voru kerfi RB komin í eðlilegt ástand og viðgerðum á búnaði var að fullu lokið um kl 21:00. Ekki er talin hætta á frekari röskun á þjónustu af þessum sökum.

Leiðrétingar gerðar á færslum gerðar oftar en einu sinni

Færslur sem framkvæmdar voru oftar en einu sinni verða leiðréttar af RB í dag. Viðskiptavinir sem ekki geta beðið geta leitað til síns viðskiptabanka.

RB gerir sér grein fyrir alvarleika málsins og harmar þær erfiðu aðstæður sem sköpuðust. RB mun í samvinnu við sína viðskiptavini greina málið frekar og grípa til ráðstafana sem draga úr möguleikum á sambærilegum bilunum í framtíðinni.