Frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um aflandskrónur varð að lögum síðastliðinn sunnudag. Með lögunum hefur stórt skref verið stigið í átt að afnámi fjármagnshafta á íslensk heimili, fyrirtæki og lífeyrissjóði, en aflandskrónueigendur sem ekki taka þátt í næsta gjaldeyrisútboði Seðlabankans munu þurfa að horfa á eftir eignum sínum inn á læsta reikninga sem bera nánast enga vexti.

Tveir umfangsmestu aflandskrónueigendur, sjóðirnir Autonomy Capital og Eaton Vance, lýstu því yfir í kjölfar aflandskrónufrumvarpsins að með því yrði eignaréttur þeirra skertur með ólögmætum hætti. Bjarni segist ekki geta sagt um það hvort lagaleg áhætta sé meiri í þessu tilviki heldur en þegar samið var við kröfuhafa föllnu bankanna, sem samþykktu að leysa stjórnvöld undan allri ábyrgð.

„Að hluta til hef ég séð lagalegan rökstuðning sem settur var saman áður en við kynntum málið. Útboðsskilmálar hafa [innsk. höfðu ekki á tíma viðtalsins] enn ekki verið birtir þannig að það kom mér dálítið á óvart að menn virtust byggja sinn málflutning áfram á sömu rökum eftir að málin höfðu verið kynnt. Þetta er mál sem við höfum unnið og kynnt fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á öllum stigum og við höfum unnið að þessu máli undir góðri leiðsögn og með aðstoð alþjóðlegra sérfræðinga, þar á meðal Lee Buchheit," segir Bjarni.

„Tæknilegrar aðstoðar höfum við notið frá Bretlandi og við höfum látið reyna á lagalegar hliðar málsins með lögfræðilegu áliti hér heima fyrir. Við teljum að málið sé sérstaklega vel undirbúið og verði ekkert betur úr garði gert. Ég skal ekkert segja til um það hvort þetta mál sé líklegra til að lenda í lagalegum ágreiningi heldur en uppgjör slitabúanna, en ég er alveg sannfærður um að við höfum undirbúið þetta skref sérstaklega vel,“ segir Bjarni.

Í umsögn sinni vilja sjóðirnir meina að ekki sé sjálfgefið að krónur þeirra séu aflandskrónur og að þeir séu opnir fyrir fjárfestingum hérlendis. Trúir þú því?

„Það þjónar auðvitað þeirra hagsmunum að segjast vilja binda fjármuni sína hér til mjög langs tíma. Kannski er það svo að alþjóðlega fjárfestingaumhverfið er ekki mjög spennandi fyrir einhverja þeirra eins og sakir standa, en okkar skylda er við íslenskan almenning og atvinnustarfsemina í landinu og við höfum skyldum að gegna hvað varðar efnahagslegan stöðugleika. Við getum ekki tekið áhættuna á því og metum það svo að veruleg hætta sé á því að þetta séu að uppistöðu til kvikar eignir. Við verð- um að miða áætlanir okkar við að svo sé. Umfang þess greiðslujafnaðarvanda sem við höfum verið að kljást við á Íslandi, að slitabúunum meðteknum, er án fordæma. Jafnvel þó okkur hafi tekist að létta á þeim vanda sem slitabúin hafa valdið okkur með nauðasamningum og stöðugleikaframlögum, þá er það samt þannig að hér erum við að tala um u.þ.b. 15% af landsframleiðslu, sem eru risavaxnar fjárhæðir. Það er ekki hægt að byggja áætlun á góðum orðum um að menn hyggist vera hérna til lengri tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .