Samkvæmt tölum Þjóðskrár fyrir september hækkaði fasteignaverð um 3,9% síðustu 12 mánuði, sem er minnsta 12 mánaða hækkun síðan vorið 2011. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans .

Á miðju síðasta ári nánast stöðvuðust þær miklu verðhækkanir húsnæðis sem einkenndu árin áður, samhliða mikilli framboðsaukningu og fjölgun viðskipta. Meðalfjöldi viðskipta á fyrstu 9 mánuðum ársins var 620, sem er rúm 10% hækkun milli ára.

Á fyrstu 9 mánuðum ársins voru um 1 af hverjum 6 viðskiptum með fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu með nýjar íbúðir.

Bankinn gerir ráð fyrir að hækkanir haldist rólegar næstu misseri. Þjóðhagsspá hagfræðideildar Landsbankans gerir ráð fyrir 4,3% hækkun milli 2017 og 2018, og 4% milli 2018 og 2019,  en milli 2016 og 2017 hækkaði verð um 19%.