*

sunnudagur, 22. júlí 2018
Innlent 10. september 2017 15:04

Ekki hætt að lána til ferðaþjónustunnar

Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, segir bankann ekki hættan að lána til ferðaþjónustunnar þó hann stígi þar varlega til jarðar.

Höskuldur Marselíusarson
Eva Björk Ægisdóttir

Vilhelm Már Þorsteinsson framkvæmdastjóri framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka segir hraða styrkingu krónunnar síðustu misserin hafa komið ýmsum fyrirtækjum illa því þau hafa selt vöru og þjónustu fram í tímann en fái svo minna fyrir hana í krónum þegar upp er staðið en gerðu ráð fyrir.

„Þessi fyrirtæki hefðu getað, og það er þjónusta sem við bjóðum upp á, selt erlenda gjaldeyririnn fyrirfram á því gengi sem var t.d. þegar bókunin eða kaupin áttu sér stað. Það er okkar hlutverk að para saman og vera þessi miðlun þeirra sem eru í innflutningi og útflutningi. Ef menn væru að gera þetta jafnt og þétt ættum við að sjá eitthvað minni sveiflur í krónunni,“ segir Vilhelm sem segir íslensku lánastofnanirnar einnig sjá um að lána fyrirtækjum í erlendri mynt.

„Það er sú þróun sem kom þegar við fórum að byggja fjármálakerfið upp á nýtt, að lántökunni var í auknum mæli stýrt þannig að hún væri í myntum í sömu hlutföllum og tekjur fyrirtækjanna.“

14% af útlánasafni bankans

Vilhelm segir að ferðaþjónustan sé svo um 14% af útlánasafni bankans. „Það er stærri hluti en ef við myndum bakka fimm ár aftur í tímann. Við erum á fínum stað með hlutfall af lánum ferðaþjónustunnar ef litið er til umsvifa hennar í gjaldeyristekjum, landsframleiðslu og svo framvegis,“ segir Vilhelm en spurður hvað ráði því hvað eða hvort bankinn láni til nýrra ferðaþjónustuverkefna segir hann það fara eftir ýmsum atriðum.

„Það fer eftir staðsetningu, eftir stærð og að einhverju leyti eftir markaðshlutdeild okkar á viðkomandi svæði, rekstraraðilanum, markhópnum og fjárfestingunni sjálfri. Heldur hefur dregið úr lánum til ferðaþjónustunnar, enda er mörgum af stóru verkefnunum lokið eða að ljúka, það er uppbygging töluverðs hluta hótelmarkaðarins.

Við erum ekki hætt að lána til ferðaþjónustunnar, en það er alveg ljóst að við erum hins vegar að stíga varlega til jarðar. Mörg þessara fyrirtækja eru komin á þann stað núna að þau þurfa að ná utan um þennan mikla vöxt sem verið hefur á síðustu árum og kannski búa til smá andrými til að vinna úr honum.“

40% af lánum úti á landi

Spurður hvort það þýði að síður sé lánað til verkefna í ferðaþjónustu eða öðru úti á landi líkt og hefur verið haldið fram segir Vilhelm að 40% af lánum til fyrirtækja í útibúaneti bankans séu á landsbyggðinni, en lánin í gegnum útibúin fari í flestum tilvikum til minni og meðalstórra fyrirtækja.

„Af stóru fyrirtækjunum eru auðvitað flest þeirra á höfuðborgarsvæðinu, þannig að það er kannski ekki alveg samanburðarhæft,“ segir Vilhelm. Hann vill sjá meiri uppbyggingu á landsbyggðinni enda landsbyggðarmaður sjálfur, en hann bendir á að hún þurfi að gerast samhliða komu ferðamanna á svæðin.

„Þetta er oft eins og með hænuna og eggið. Við Íslendingar viljum auðvitað dreifa ferðamönnunum sem víðast, en til þess að það sé mögulegt þá þurfum við uppbyggingu.“

Skattheimtan ýtir undir sameiningar

Vilhelm segir að margir ferðaþjónustuaðilar hafi þurft að fara aftur yfir sínar áætlanir og fjárfestingarhugmyndir þegar hugmyndir Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra um hækkun virðisaukaskatts á greinina komu fram.

„Vissulega voru uppi áhyggjuraddir og ferðaþjónustuaðilar mismunandi í stakk búnir að ráða við auknar álögur sem byggðar voru á tölum yfir árangur og afkomu greinarinnar frá árunum 2014 og 2015. Síðan vitum við að það var ekki sama afkoma árið 2016 og verður það líklega ekki heldur 2017,“ segir Vilhelm.

„Samanburður og dæmi erlendis frá þar sem þetta hefur verið gert sýnir að þróunin gæti orðið neikvæð, þó auðvitað sé það mismunandi milli markaða. Á sama tíma og menn eru almennt sammála um að Ísland sé mjög dýrt, blasir við að fyrirtækin geta ekki tekið á sig þessar auknu álögur og sett út í verðlagið.“

Aukin skattheimta mun að mati Vilhelms ýtir enn frekar undir þá þróun sem þegar er hafin. „Hún mun verða hvati til frekari samþættingar og sameininga í ferðaþjónustunni. Samþjöppunin er að mörgu leyti þörf, þetta er atvinnugrein sem hefur vaxið gríðarlega hratt, enda varð auðvitað sprenging í fjölda ferðamanna sem komu til landsins og því eðli málsins samkvæmt hafi atvinnugreinin þurft að vaxa mjög hratt samhliða því.

En eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum þá eru núna blikur á lofti. Vöxturinn núna yfir sumarmánuðina hefur verið minni en verið hefur, þó engu að síður sé metfjöldi ferðamanna að koma. Því er nauðsynlegt að þessi fyrirtæki styrki sína innviði sem þau gera gjarnan með sameiningum,“ segir Vilhelm sem segir bankann oft fjármagna slík viðskipti.

„Þetta er dæmi um þá gerjun sem er í gangi, en þarna þarf ekki alltaf fjármögnun, heldur ráðgjafa með sérfræðiþekkingu sem geta verið ráðgjafandi aðili fyrir annan hvorn hópinn. Þar höfum við verið með sterka stöðu og stór verkefni. Til dæmis vorum við ráðgjafi eigenda KEA hótela þegar þeir seldu 75% af hlut sínum í hótelunum til erlendra aðila. Þetta eru dæmi um eigendabreytingar á fyrirtækjum og má þar einnig nefna sameiningu Iceland Travel við Allrahanda Gray Line sem við höfðum líka aðkomu að.“

Sameiningar í fleiri lykilgreinum

Vilhelm er spurður hvort staðan sé of viðkvæm í greininni núna fyrir auknar álögur.

„Ég held að aðilar í greininni hafi nú verið að færa góð rök fyrir því hvers vegna ætti að stíga varlega til jarðar og taka kannski minni skref og gefa lengri aðlögunartíma. Því þrátt fyrir að ferðaþjónusta hafi þekkst lengi á Íslandi þá er hún býsna ung í núverandi mynd, og þessi gríðarlega hraði vöxtur hefur skipt þjóðarbúið óskaplega miklu máli.“

Vilhelm segir að fleiri lykilgreinar í íslensku atvinnulífi geti þurft að fara í gegnum hagræðingu og sameiningar á næstunni nú þegar hægir á í efnahagslífinu eftir bestu mögulegu aðstæður með mikilli eftirspurn og vexti síðustu ár.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.