Þrátt fyrir að Silicor Materials hafi fallið frá samningum við Faxaflóahafnir um lóð og hafnaraðstöðu er fyrirtækið ekki hætt við áform um uppbyggingu kísilverksmiðju á Grundartanga. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá þegar í ljós kom að félagið hefði fallið frá samningunum þá hafði þó fyrirtækið ákveðið í vor að hægja á undirbúningnum.

Michael Russo forstjóri fyrirtækisins staðfestir að hann sé þó enn í gangi, en segir að fjármögnun verkefnisins hafi hins vegar verið tekin til endurskoðunar að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

„Við þurftum að taka eitt eða tvö skref til baka og endurmeta stöðuna en við höfum fullan hug á að halda verkefninu áfram, því hefur ekki verið hætt,“ segir Russo.

Heildarfjármögnun verkefnisins var metin á um 900 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur í dag um 95 milljörðum króna og átti að skapa 450 störf, en erfiðara hefur reynst að fjármagna það en félagið taldi í fyrstu.