Í mars lækkaði leiðandi hagvísir Analytica, fjórtánda mánuðinn í röð, og er lækkunin nú sú mesta síðan árið 2008. Tekur hagvísirinn nú gildi 98,7, en í mars fyrir ári var hann í 102,6.

Hagvísirinn, sem er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum, ber vott um samdrátt og stöðnun framundan og þá óvissu sem ríkir í efnahagshorfum.

Fjórir af sex undirliðum lækka frá í febrúar en mesta framlag til lækkunar hefur þróun ferðamanna­fjölda. Langtímaupp­leitni mikilvægra undirþátta er enn sterk en mikil óvissa sérstaklega í ferðaþjónustu og kjaramálum. Þá eru áfram áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.