Reykjanesbær hefur ákveðið að breyta aðalskipulagi Helguvíkur þannig að ekki verði lengur gert ráð fyrir frekari uppbyggingu stóriðju á svæðinu, umfram það sem þegar hefur verið samþykkt.

Eiga vandamál í starfsemi kísilmálmverksmiðju United Silicon sinn þátt í ákvörðun bæjarstjórnar að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

„Sjónarmið um að láta gott heita með stóriðju komu fram á íbúafundum hér í bænum í fyrra,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri. „Við höfum rætt þetta talsvert að undanförnu og nú liggur ákvörðun fyrir.“

Fyrir utan verksmiðju United Silicon í Helguvík hefur verið gefið út starfsleyfi fyrir kísilverksmiðju Thorsil og svo er búið að setja upp veggi álvers Norðuráls.

„Margir sem stefna á uppbyggingu atvinnustarfsemi hafa samband og eru að kynna sér aðstæður og umhverfi, en þær hugmyndir og áform eru ekki í neinum stóriðjustíl.“