Verðhjöðnun á Íslandi hefur ekki mælst jafnmikil í hálfa öld að því er Greining Íslandsbanka greinir fr á, en þá er átt við þróun verðvísitölu hér á landi þannig að húsnæðisverð sé tekið út.

Lækkaði vísitala neysluverðs, án húsnæðis, um 0,28% í marsmánuði, sem gefur 1,7% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Með húsnæði hækkaði vísitalan þó um 0,07% í mars, sem var eilítið minni hækkun en Íslandsbanki hafði spáð, sem var 0,2% hækkun.

Reiknuð húsaleiga hækkað um 18%

Mælist verðbólga undanfarinna 12 mánaða nú 1,6% en hún hafði mælst 1,9% samfleytt í þrjá mánuði þar á undan. Hækkaði húsnæðisliðurinn um tæp 0,9% en reiknuð húsaleiga hækkaði um 1,7%.

Hefur þessi liður hækkað um nærri 18% undanfarna 12 mánuði, sem hefur eitt og sér áhrif til 2,8% verðbólgu á tímabilinu.

Skór og fatnaður lækkað frá áramótum

Íslandsbanki segir að líkt og þeir bjuggust við hafi útsölulok haft áhrif á verðþróunina, einkum á fata og skóverð, en sá liður hafi hækkað um 7,9% í marsmánuði, en hann hafi einungis hækkað um 0,7% í febrúar. Síðustu þrjá mánuði hefur verð á skóm og fötum lækkað um 2,1% í heildina.

Verð á húsgögnum og öðrum skyldum vörum lækkaði um 2,7% í marsmánuði, og telur bankinn að 10% verðlækkun Ikea komi þar inn í, en einnig lækkaði verð á mat og drykk um 0,9% í mars, þar af lækkaði verð á grænmeti og ávöxtum mest.

Tæplega 5% lækkun bifreiða frá áramótum

Verðlækkun bifreiða nam 1,6% í mars, sem þýðir að verð þeirra hefur lækkað um tæplega 5% frá áramótum, en auk þess lækkaði verð á flugfargjöldum um 5,6% og 2,1% á eldsneyti.

Lækkun á síma, póst og netnotkun nemur svo 2,4% en liðurinn sem inniheldur verð á þeim vörum hefur lækkað um tæplega 20% undanfarið ár.

Spáir bankinn að vísitala neysluverð hækki um 0,3% í apríl og maí, en hækkunin verði svo 0,1% í júní, og verði verðbólgan því 1,5% í júní.